11.6.2009 | 17:20
Ríkisfjármál: Hik og tafir kalla á veika krónu og háa vexti
Hik stjórnvalda á lausn ríkisfjármálanna er með ólíkindum. Nú hafa tapast nær 6 vikur sem eru orðnar ansi dýrkeyptar: lægri króna og háir vextir.
Ég hef skrifað hér áður um neyðarfjárlög Íra sem þeir birtu í byrjun apríl en þeir glíma við svipaðan halla og Ísland en ætla að ná honum niður um 10% á 4 árum en Ísland þarf að ná hallanum niður um 13% á 3 árum en samt bólar ekkert á aðgerðum hér!
Hvers vegna ríkisstjórnin var ekki tilbúinn með neyðarpakka strax eftir kosningar er alveg óskiljanlegt. Hvað hafa menn verið að gera í fjármálaráðuneytinu síðustu 6 mánuði?
Þetta hik og þessar tafir hafa ekki aðeins afleitar afleiðingar fyrir heimilin og atvinnulífið þær draga einnig úr tiltrú manna á stjórninni og hennar hæfileikum að ráða við vandann. Þetta styrkir ekki okkar stöðu gagnvart ESB í samningaviðræðum sem nú eiga að byrja.
Vandamálið er hins vegar tvíeggjað og erfitt fyrir vinstri stjórn að glíma við. Lítil umræða er á Íslandi um hvar eigi að skera niður og hvernig eigi að hækka skatta og hver hlutföllin eigi að vera. Þessi umræða er hins vegar á mjög öflugu stigi í okkar nágrannalöndum sem eiga við svipaðan vanda að etja. Hér er það sem rætt er um:
Því meir sem hallinn á ríkisfjárlögum er brúaður með niðurskurði en ekki skattahækkunum því meiri líkur eru á að krónan styrkist og vextir lækki hratt. Þetta mun örva atvinnulífið. Hins vegar ef skattahækkunarleiðin er farin eru líkur á að krónan muni ekki styrkjast í bráð og háir vextir verði áfram. Atvinnuleysi mun aukast og einkageirinn staðna. Í Bretlandi er talið að skattahækkanir megi ekki vera meir en 1/3 hluti í aðhaldsaðgerðum án þess að setja gjaldmiðilinn og vextina í hættu. (Írar völdu 1/3 skattahækkanir, 1/3 niðurskurð í rekstri ríkisins og 1/3 niðurskurð í fjárfestingum ríkisins)
Þetta er auðvita afleitar fréttir fyrir vinstri stjórn sem ætlar að standa vörð um velferðakerfið en það þýðri ekki að stinga höfðinu í sandinn og vona að hlutirnir reddist. Stjórnvöld verða að opna umræðuna um ríkisfjármálin og útskýra hlutina fyrir fólki.
Útspil Steingríms um helmingaleið í skattlagningu og niðurskurði hefur af skiljanlegum ástæðum fallið í grýttan jarðveg hjá atvinnurekendum og fjármagnseigendum. En hvað gerist ef útlendingar missa tiltrúna á Íslendinga og fella lánshæfni landsins niður í "junk" flokk og erlendir bankar kalla inn lán til Landsvirkjunar og annarra helstu fyrirtækja landsins.
Ríkisstjórnin hefur því í raun lítið svigrúm til að standa vörð um velferðakerfið og það má ekkert fara úrskeiðis hjá stjórninni þegar hún tilkynnir loks um aðgerðir í ríkisfjármálum.
SA: Skera þarf ríkisútgjöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.