3.5.2009 | 07:20
Brennt barn forðast eldinn
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er rætt um mikilvægi þess að endurreisa hlutabréfamarkaðinn hér á landi. Hlutabréfamarkaðir og bankar eru lífæð fyrirtækjanna. Án þeirra mun allur atvinnurekstur á landinu færast í ríkisforsjá þar sem pólitísk sjónarmið og miðstýring mun ráða.
Heimurinn þekkir þessa aðferð. Austur Þýskaland náði einna lengst á þessari hugmyndafræði og einhvern veginn held ég að margir innan VG telji að þessi aðferð sé betri en hin svokölluð nýfrjálshyggja sem margir halda að keyrði allt um koll hér. Spurningin þá er þessi: hafa VG þekkingu og reynslu í miðstýringu og ríkisforsjá á atvinnulífinu eða eru þeir jafn reynslulitlir og Sjálfstæðismenn þegar þeir fóru í nýfrjálshyggjuna?
Málið er nefnilega að kerfið sem við veljum er aðeins eins sterkt og gott og það fólk sem því stýrir. Á Íslandi eru svona athugasemdum yfirleitt sópað undir teppið á þeim grundvelli að ekki megi persónugera vandann. Það eru alltaf stefnan, flokkarnir og hugmyndafræðin sem bregst á Íslandi. Sjaldan fólkið, enda eru úrslit úr nýlegum prófkjörum besta sönnun þess. Á þessu er ein undantekning og það eru hinir svokallaðir "auðmenn" sem hafa aldrei átt upp á pallborðið hér á landi nema þegar dansinn í kringum gullkálfinn er stiginn.
Það verður ekki auðvelt að reisa hlutabréfamarkaðinn. Traust og trúverðugleiki er enginn og allt lagaverkið og eftirlit er á brauðfótum. Hrun markaðarins mun ekki gleymast og neyðarlögin setja Ísland á bás með Venesúela, Norður Kóreu og Kúbu. Erlendir fjárfestar hafa val og hlutabréfamarkaðir um allan heim eru að reyna að laða að fjármagn. Hvernig ætla Íslendingar að markaðssetja sig í þeirri samkeppni? 80% þjóðarinnar telur íslenskt atvinnulíf spillt svo varla fer almenningur að láta sitt sparifé í svoleiðis fyrirtæki. Mikilum þrýstingi mun verða beitt á lífeyrissjóðina um að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum og þá verða sjóðsfélagar að vera með augun opin!
Án öflugs hlutabréfamarkaðar er tvísýnt að ríkið geti selt bankana. Þeir verða því líklega í ríkisforsjá um ókomin ár. Traustir hlutabréfamarkaðir er mikilvæg undirstaða atvinnulífs á öllum hinum Norðurlöndunum. Efnahagsgrunnur hins norræna velferðarkerfis er kapítalískur þar sem markaðslögmálin gilda.
Hvaða módel ætlar ný ríkistjórn að velja:
- Miðstýrða ríkisforsjá og resktur þar sem ríkið tekur ákvarðanir um alla fjármögnun, lánafyrirgreiðslu, lánakjör, niðurfærslur, innheimtur, rekstrarfyrirkomulag, kaup og kjör í gegnum pólitíska ríkisbanka?
- Kapítalískan markaðsbúskap að hætti hinna Norðurlandanna?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.