11.4.2009 | 11:39
Frá páskum til jóla
Agnes Bragadóttir skrifar grein í Morgunblaðið í dag um ESB trúlofun Jóhönnu og Steingríms. Það er alveg rétt hjá Agnesi að ekki horfir vel með þá trúlofun og vel getur verið að hún endist aðeins til jóla.
En þar með er ekki sagt að aðild að ESB sé úr sögunni.
Lönd hafa gengið í ESB af tveimur ástæðum: a) til að viðhalda lífskjörum borgara sinna eða b) til að auka þau. ESB snýst fyrst og fremst um lífskjör og velferð.
Á meðan þjóðartekjur á mann eru yfir ESB meðaltali er lítil ástæða fyrir lönd að sækja um, samanber Noreg og Sviss. Danir, Svíar og Finnar gengu inn til að verja sinn efnahag og lífskjör.
Íslendingar eru sér á báti vegna sjávarútvegsstefnu ESB og mikilvægis sjávarútvegs í að viðhalda lífskjörum hér á landi. Spánverjar ráða ferðinni í sjávarútvegsstefnu ESB en mikill þrýstingur er frá Norður Evrópu löndum um að endurskoða hana og færa í nútímalegra horf. Innganga Íslands gæti skipt þar miklu máli og velt valdahlutföllum frá suðri til norðurs. Það er því sammsýnt að rýna um of í núverandi stefnu ESB í sjárvarútvegi. Ísland getur og mun hafa þar áhrif en hver þau verða kemur ekki í ljós fyrr en við förum og tölum við Brussel.
Að standa fyrir utan ESB með krónuna, verðtryggingu, gjaldeyrishöft og sjávarútveg sem aðalatvinnugrein er auðvita annar valmöguleik fyrir komandi kynslóðir. En honum fylgir líka fórnarkostnaður alveg eins og innganga í ESB. Agnes segir: "að engum hefur tekist að sýna fram á að við Íslendingar munum áfram ráða yfir auðlindum okkar ef við göngum í ESB"
En ég spyr þá: Hvað með framtíð næstu kynslóða? Á hið unga háskólamenntaða fólk ekki rétt á að finna sér starf við hæfi á Íslandi eða þarf þetta fólk að flytja af landi brott. Ef við göngum ekki inn í ESB er hætta á að Ísland breytist í veiðistöð og elliheimili og að besta, hæfasta, mest menntaða og metnaðarfyllsta fólkið okkar (og er það ekki líka auðlind) flytjist til ESB. Á ensku er þetta kallað "voting with your feet"
ESB er ekki mikið kosningamál frekar en ríkisfjármálin. Öll þessu erfiðu mál hafa verið sett niður í skúffu en þar geta þau ekki verið nema fram að kosningum. Eftir kosningar mun ASG opna skúffuna og gefa skipanir um hallalausan ríkisbúskap.
Fyrir jól verður að koma fjárlögum fyrir 2010 í gegn og aukafjárlögum fyrir 2009 þar sem veltuskattar verða hækkaðir (skattar á bensín, áfengi, tóbak og lúxus matvöru verða hækkaðir strax í maí í líkingu við aukafjárlög írsku ríkisstjórnarinnar frá 7. apríl). Niðurskurður í formi launalækkana hjá ríkinu verður tilkynntur (í Lettlandi er talað um að AGS fari fram á allt að 35% niðurskurð) og vextir verða lækkaðir til að svigrúm myndist til að hækka tekjuskatt og aðra skatta. Krónan mun síg niður í 200 kr evran.
Allt þetta þýðir lakari lífskjör sem aftur eykur þrýsting á ESB viðræður og aðild. Nei, ástandið nú um páska er hátíð hjá því sem það verður um jól, því miður.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ísland, áhrif innan Evrópusambandsins? Góður þessi :)
Hvert yrði vægi Íslands innan ESB?
Því er gjarnan haldið fram af þeim sem vilja ganga í Evrópusambandið að aðild sé nauðsynleg til þess að við getum haft áhrif innan sambandsins. Látið er eins og vægi Íslands innan þess yrði mikið og jafnvel ýjað að því að við myndum ráða öllu þar á bæ sem við vildum. Minna er hins vegar farið út í það nákvæmlega hversu mikið vægi Íslands innan Evrópusambandsins kynni að verða. Í ítarlegri og fróðlegri skýrslu Evrópunefndar forsætisráðherra, sem nefndin sendi frá sér í marz 2007, er þessu gerð skil á bls. 83-85.
Formlegt vægi aðildarríkja Evrópusambandsins innan þess miðast fyrst og fremst við íbúafjölda þeirra sem verður að teljast afar óhagstæður mælikvarði fyrir okkur Íslendinga. Gera má því ráð fyrir að vægi okkar innan sambandsins yrði hliðstætt og Möltu en þar bjuggu um 400 þúsund manns í lokárs 2006. Ísland yrði ásamt Möltu fámennasta aðildarríkið og þar með með minnst vægi.
Ísland fengi einn fulltrúa í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Í Nice-sáttamálanum er gert ráð fyrir að þegar aðildarríkin eru orðin 27 (sem þau urðu um áramótin 2006-2007) verði fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni færri en aðildarríkin sem kemur væntanlega til framkvæmda við skipun næstu framkvæmdastjórnar árið 2009 að óbreyttu. Í fyrirhugaðri stjórnaraskrá sambandsins er hins vegar gert ráð fyrir að hvert aðildarríki eigi aðeins fulltrúa í framkvæmdastjórninni annað hvert kjörtímabil en kjörtímabilið er 5 ár.
Þess ber þó að geta að fulltrúarnir í framkvæmdastjórninni eru í raun einungis fulltrúar aðildarríkjanna að því leyti að ríkisstjórnir þeirra tilnefna þá. Þess utan er þeim óheimilt að draga taum heimalanda sinna og ber einungis að líta til heildarhagsmuna Evrópusambandsins.
Í leiðtogaráðinu sitja leiðtogar aðildarríkjanna og forsætisráðherra Íslands myndi sitja þar sem fulltrúi landsins. Í ráðherraráðinu myndi Ísland væntanlega fá þrjú atkvæði af 345. Á Evrópusambandsþinginu fengjum við 5 þingmenn af 785, 6 af 750 ef fyrirhuguð stjórnarskrá Evrópusambandsins verður samþykkt. M.ö.o. vel innan við 1% vægi í báðum tilfellum.
Í efnahags- og félagsmálanefnd sambandsins, sem og héraðanefnd þess, myndi Ísland væntanlega líkt og Malta fá fimm fulltrúa en alls eru 344 fulltrúar í þessum nefndum í dag.
Ísland myndi tilnefna einn dómara í dómstól Evrópusambandsins en hann væri, líkt og fulltrúann í framkvæmdastjórninn, ekki fulltrúi íslenzkra hagsmuna.
Aðildarríkin skiptast á að vera í forsæti ráðherraráðsins í sex mánuði í senn. Miðað við 28 aðildarríki færi Ísland með forsætið á 14 ára fresti. Ef stjórnarskráin verður samþykkt verður þetta kerfi afnumið og í staðinn kemur sérstakur kjörinn forseti ráðsins.
Að öðru leyti myndi í raun ekkert breytast við aðild hvað varðar vægi okkar innan Evrópusambandsins. Aðalvægi Íslands innan sambandsins myndi áfram byggjast á "lobbyisma", rétt eins og raunin er í dag. Á móti myndum við gefa eftir yfirráð okkar yfir flestum okkar málum en lítið sem ekkert hafa um þau að segja eftir það.
Hjörtur J. Guðmundsson, 11.4.2009 kl. 11:48
Hjörtur,
Ekkert ríki hefur meiri áhrif innan ESB miðað við fólksfjölda en Lúxemborg. Þeir hafa alltaf notað smæð sína sér til framdráttar og eru nú með hæstu þjóðartekjur á mann innan ESB. Við megum ekki alltaf vera með þessa minnimáttarkennd vegna smæðar okkar gagnvart útlendingum. Við missum nú varla yfirráð yfir öllu hér við það eitt að taka upp símann og tala við Brussel!
Andri Geir Arinbjarnarson, 11.4.2009 kl. 12:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.