Er peningamálastefna AGS í molum?

Lítið hefur verið rætt um AGS prógrammið sem Ísland er aðili að og hvort það sé að skila tilætluðum árangri.  Það ætti að vera sérstakt áhyggjuefni kjósenda hversu undirgefnir allir flokkar virðast vera gagnvart AGS.  Engar mótbárur eða umræður eru um aðgerðir og tilskipanir þeirra háu herra hjá AGS sem sitja skör hærra en okkar eigin ráðherrar.  En hvað er að gerast?

Peningamálastefna AGS virðist í molum.  18% vaxtahækkunin sem sjóðurinn tilskipaði hefur ekki skilað árangri.  Krónan er jafn sveiflukennd og veik og gjaldeyrishöft enn harðari.  Eina sem þessir háu vextir hafa skilað er aukið atvinnuleysi og auknar vaxtagreiðslur erlendis.  Svo virðist sem sérfræðingar AGS hafi ofmetið áhrif stýrivaxtahækkunar og vanmetið þolinmæði krónubréfshafa í því efnahagsástandi sem nú ríkir í heiminum.

Þetta er loksins að renna upp fyrir AGS en því miður ekki fyrr en skaðinn er skeður.  Og nú er tíminn á þrotum svo krónunni verður að fórna til að hægt sé að bjarga "ríkisfjármála" stefnunni um hallalaus ríkisfjármál 2012.  Til að svo megi verða verður að byrja einhvern hinn mesta niðurskurð í velferðakerfi Evrópulands sem sést hefur í seinni tíð.  Samhliða þessu þarf að hækka skatta og því er nauðsynlegt að fórna krónunni og lækka vexti til að auka greiðslugetu heimilanna.  M.ö.o hinar háu vaxtagreiðslur sem nú renna til fjármagnseiganda þurfa nú að renna til ríkisins og síðan til AGS sem vextir og endurgreiðsla. 

Krónan og velferðakerfið verða fórnarlömbin.  AGS þarf ekki að gæta pólitískra hagsmuna hér á landi og getur því beitt sér af hörku til að ná fram sínum markmiðum.  Það eina sem skiptir máli er að AGS sýni "eigendum" sínum að þeir gæti peninga þeirra vel og að lönd í þeirra gæslu hagi sér samkvæmt samþykktu prógrammi.  Þannig eru starfsmenn AGS einnig að slá skjaldborg um sinn eigin starfsframa og eftirlaun.

Það er með ólíkindum að AGS skulu ekki vera eitt af helstu kosningamálum fyrir þessar kosningar.  Engin stofnun mun ráða meir um velferð og efnahag heimilanna á landinu á næstu árum en einmitt AGS.

Hins vegar má líta svo á að það skipti litlu máli hvaða flokkar myndi stjórn næsta kjörtímabil, hin raunverulegu völd liggja hjá AGS. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Rúmlega 22% raunstýrivextir eru án efa hæstu raunstýrivextir í heimi. Áhrifin eru samdráttur í efnahagskerfinu, sem ekki verður komið nokkur rök fyrir. Þetta eru skemmdarverk á íslensku efnahagskerfi. Fulltrúar AGS hafa hins vegar sagt að ákvarðanir séu í höndum íslenskra stjórnvalda, og það hafa þeir aðilar sem unnið hafa fyrir sjóðinn staðfest. Það er því fyrst og fremst linkind og ákvarðanafælni núverandi stjórnvalda auk þess liðs sem þau hafa að vinna að peningamálastefnunni sem veldur þessari skemmdarverkastefnu.

Sigurður Þorsteinsson, 11.4.2009 kl. 18:41

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Mig minnir að AGS hafi ráðið ferðinni þegar vextir voru hækkaðir upp í 18% eða var þar um að kenna linkind og ákvarðanafælni Geirs Haarde og hans stjórnar? 

Það er því miður enginn raunverulegur munur á íslenskum stjórnmálaflokkum, alla vegur hefur enginn þeirra getað sannfært mig um það.

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.4.2009 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband