2.4.2009 | 08:50
Með lánum skal land byggja og ólánum eyða!
Erlendir kröfuhafar eru að missa þolinmæðina yfir aðgerðarleysi og ráðaleysi íslenskar stjórnvalda sem margir aðrir. Síðustu 6 mánuði höfum við reglulega heyrt að nauðsynlegt sé að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum annars opnist ekki fyrir erlenda fjármögnun. En hvers vegna kemur engin afgerandi yfirlýsing um þetta efni frá stjórnvöldum sem erlendir aðilar geta treyst?
Nauðsynlegt skilyrði fyrir endurreisn efnahagslífs hér er að hér starfi alþjóðlega viðurkennt bankakerfi með aðgang að erlendu fjármagni. Svo er ekki nú og á meðan er ekki hægt að taka á vanda heimilanna og fyrirtækja af þeirri festu og með því afli sem er nauðsynlegt.
Við erum nú á hraðleið aftur til sjálfsbjargarbúskaps þar sem útflutningstekjur sjávarútvegsins munu ákveða okkar lífskjör og atvinnumöguleika. Byggingariðnaður, verslun og fjármálastarfsemi eru hrunin eða að hrynja niður á fyrra stig sem hér ríkti fyrir 30 árum. Aðrar nýjar atvinnugreinar eru í erfiðleikum og þeir sem geta fært sína starfsemi erlendis íhuga það. Orkuiðnaðurinn fer ekki varhluta af ástandinu. Álverð hríðfellur og staða Landsvirkjunar er óviss. Landbúnaðurinn er sligaður af skuldum og háu verði aðfanga. Eina bjarta ljósið er ferðamannaþjónusta sem virðist standa einna best.
En að snúa klukkunni aftur um 30 ár verður sársaukafullt og varla hægt, þó við vildum. Hinar ótrúlegu skuldir einstaklinga og fyrirtækja nú voru óþekktar af fyrri kynslóð. Hinn gamli sjálfsbjargarbúskapur getur aldrei staðið undir lágmarks velferðarþjóðfélagi og núverandi skuldabagga. Þetta dæmi gengur ekki upp.
Það mun því engin framför verða fyrr en við ákveðum hvað skuldir við ætlum að greiða og hvernig. Aðeins þá geta fjármagnseigendur ákveðið hvort séum borgunarmenn fyrir enn meiri lánum. Með lánum skal land byggja og ólánum eyða virðist vera staða okkar í dag.
![]() |
Vill að erlendir kröfuhafar eignist hlut í bönkunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.