AGS samþykkir varla stjórnarhætti íslensku bankanna

Það á að auglýsa stöðu seðlabankastjóra og fá þar fagaðila á sama tíma og ríkisstjórnin samþykkir pólitíska ráðningu bankastjóra Landsbankans sem mun gilda út líftíma ríkisstjórnarinnar.  Þetta er pólitísk tvöfeldni og vonbrigði fyrir þá sem héldu að Vinstri Grænir kæmu með ný og lýðræðisleg vinnubrögð inn í ráðherraveldið Ísland.  Nei aðferðirnar eru þær sömu og Sjálfstæðisflokkurinn notaði aðeins með öfugum formerkjum.  Nýskipuð stjórn LÍN tekur af allan vafa um aðferðafræðina.

Ísland er nú orðið alþjóðlegt skólabókardæmi um hversu hættulegt það er að skipa pólitíska aðila í topp opinberar stöður.  Erlendir aðilar standa agndofa yfir vitleysunni en íslenskir stjórnmálamenn í öllum flokkum virðast ekki kunna eða geta neitt annað.  Hvers vegna?     Hvaða röksemdafærsla liggur á bak við þá ákvörðun að auglýsa eftir fagaðila inn í Seðlabankann en ekki viðskiptabankanna?

Ekki nóg með það.  Leitað er til AGS um ráð til að bæta stjórnarhætti Seðlabankans  og ekkert nema gott um það að segja enda mikil reynsla þar á bæ.  En gerir ríkistjórnin sér ekki grein fyrir því að á sama tíma þverbrýtur hún allar erlendar leiðbeiningar um stjórnarhætti með því að skipa pólitískan formann bankaráðs Landsbankans sem bankastjóra og þar með eru stöður formanns og bankastjóra sameinaðar.  Hér eru óeðlileg völd komin á hendur eins manns sem er pólitísk skipaður og honum til stuðnings er pólitískt bankaráð. 

Af hverju ekki að auglýsa bankastjórastöður og bankaráðsstöður eins og undirritaður skrifaði um í Morgunblaði á síðasta ári?  Þau rök að efnahagsreikningur liggi ekki fyrir er fyrirsláttur.  Hægt hefði verið að ráða fagaðila til að stjórna bankanum í 6-9 mánuði. 

Það hlýtur að verða krafa AGS að stöður formanns og bankastjóra séu aðskildar strax.  Bankinn getur ekki komið að endurreisn íslenska bankakerfisins á meðan aðrir eins stjórnarhættir viðgangast.  AGS verður að krefjast þess að alþjóðlega viðurkenndir stjórnarhættir verði viðhafðir jafnt hjá Seðlabankanum og viðskiptabönkunum.  Sú staða sem nú er komin upp er vægast sagt óheppileg og ríkisstjórnin hefur sett AGS í óþægilega stöðu.  Fróðlegt verður að sjá hvernig AGS tekur á  þessu máli. 

Því fyrr sem allir stjórnmálaflokkar gera sér grein fyrir að fagleg alþjóðleg gildi verða að ráða í mannaráðningum hins opinbera því fyrr mun þjóðin komast út úr þessum erfiðleikum.  Það voru einstaklingar með sínum aðgerðum sem komu þjóðinni í þessa erfiðleika og það verða einstaklingar sem koma okkur út úr þeim.  Það að halda því fram að ekki sé hægt eða megi persónugera vandann og lausnirnar er pólitísk blekking.

(ensk útgáfa fylgir hér að ofan)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband