17.1.2010 | 21:26
Þeir sem eiga skuldirnar eiga eignirnar
Ísland er að verða skólabókardæmi um hvað gerist þegar skuldir fyrirtækja verða óviðráðanlegar og stjórnir missa trúverðugleika. Þá grípa lánadrottnar í taumana og taka völdin enda eru þeir hinir raunverulegu eigendur.
Svona fóru bankarnir, Fl Group, Samson, Eimskip, Icelandair, bílaumboðin og fjöldi annarra fyrirtækja. Nú er komið að Exista, Bakkavör, Högum og Actavis.
Í raun má segja að lánadrottnar eigi meirihlutann af eignum á Íslandi. Hversu mikið sjálfræði hefur maður þegar maður er ekki fjárráða?
Bræðurnir að missa Bakkavör? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er ein hliðin á hruninu sem ég er ekki viss um að fólk geri sér almennt grein fyrir. Það kom víst yfirlýsing frá Björgólfi Thor í kvöld um að þýski bankinn væri ekki að yfirtaka Actavis.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 17.1.2010 kl. 21:59
Verður fróðlegt að sjá hver eignast Sjóvá...sem er að fara í sölu í vikunni..skyldi einhver af þessum svokölluðu "auðmönnum" eignast Sjóvá??
Ægir Óskar Hallgrímsson, 17.1.2010 kl. 22:01
Það skiptir svo sem ekki öllu máli hverskonar vegabréf eigendur fyrirtæja sem hér starfa eru með. Svo lengi sem íslenskri fá sín laun og ríkið sínar skatttekjur erum við ágætlega fjárráða.
Annars er það ekki rétt að lánadrottnar séu að taka starfsemi hér í sínar hendur, hún er mest að færast í hendur ríkisins sem er mjög passívur eigandi og þrotabúa gömlu bankanna sem ekki verða gerðir upp fyrr en eftir mörg ár, þegar þeir sem þar ráða nú verða búnir að bora sig svo fasta að erfitt verður að losna við þá.
Eiginlega er þróun mála með Bakkavör dæmigerð fyrir ástandið, bræðurnir tapa fyrirtækinu en stjórna því áfram! Eignarréttur, sem er formlega í höndum fjarlægra og máttvana aðila, og ráðstöfunar"réttur" eru að skiljast að.
Maður gæti næstum því sagt að við séum að þróa hér nútímaútgáfu af lénssamfélagi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 22:01
"...íslenskir starfsmenn fá sín laun..."
"...Annars er það ekki rétt að lánadrottnar séu almennt að taka starfsemi hér..."
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 22:04
Hagnaður og vaxtagreiðslur renna úr landi, það munar nú um minna.
Andri Geir Arinbjarnarson, 17.1.2010 kl. 22:31
Ólíkt velsældinni sem fylgir því þegar Björgólfur Thor kaupir glæsihýsi í London og símafyrirtæki í Búlgaríu?
Fylgir ekki annars, samkvæmt þessari lógík, að banna erlendar fjárfestingar og lántökur?
Ekki bjóst ég við þessari skoðun úr þessari átt.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.1.2010 kl. 23:22
Hans,
Það er ljómandi að fá erlent fjármagn í nýjar fjárfestingar en þegar rótgróin og vel rekin fyrirtæki eins og Eimskip, Síminn og Icelandair eru skuldsett úr hófi fram og þau lán sem þannig fást eru notuð í vitleysu af óvitum þá erum við á villigötum. Það sem skiptir máli er hvernig fjármagnið er notað.
Það ætti að hafa runnið upp fyrir flestum hér á landi að erlend lán í höndum óvita er myllusteinn um háls þjóðarinnar en lán sem notuð eru af skynsemi til að byggja upp arðsama atvinnustarfsemi eru lyftistöng.
Lán eru annað hvort myllusteinn eða lyftistöng. Öllu máli skiptir reynsla og þekking þeirra einstaklinga sem fara með fjármunina. Margir hér á landi vilja ekki viðurkenna þetta, auðveldara er að kenna hugmyndafræðinni eða stofnunum um vandamálin, ekki má persónugera vandann.
Hinn gamli sannleikur segir okkur að einstaklingar eru á bak við flest vandamál og einnig lausnir.
Andri Geir Arinbjarnarson, 17.1.2010 kl. 23:47
Er það ekki rétt skilið hjá mér Andri Geir að í raun sé verið að einkavæða ríkisbankana aftur? Í fyrra skiptið komu fjármunir í ríkissjóð en nú er verið að koma í veg fyrir að fjármunir fari úr ríkissjóði. Eftir stendur að bankarnir verða komnir í einkaeigu en að þessu sinni munu vogunarsjóðir eiga bankana, sem áttu stóran þátt í ,,að fella Ísland".
Jón Baldur Lorange, 18.1.2010 kl. 00:02
Sem sagt: Leikflétta þeirra gekk fullkomlega upp! Ísland er skák og mát!
Jón Baldur Lorange, 18.1.2010 kl. 00:03
Jón Baldur,
Jú það má líta á þetta svo. Mistökin voru að lífeyrissjóðirnir áttu að kaupa þessi bankaskuldabréf á 2-5% sem vogunarsjóðirnir keyptu, þá hefði eignarhaldið og hagnaðurinn haldist hér á landi. Hagnaðurinn á þessu hefði borgað fyrir Icesave, líklega.
Andri Geir Arinbjarnarson, 18.1.2010 kl. 00:32
Veltur þetta ekki allt á því hvort fjárfestar sem á annað borð kjósa að vera með umsvif hér - margir munu vafalaust selja íslensku eignirnar mjög fljótlega - eru líklegri eða ólíklegri til þess að nota hagnað til fjárfestinga innanlands en innlendir fjármagnseigendur?
Ég sé ekki að það liggi beint við að þeir séu ólíklegri.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 00:49
"Það ætti að hafa runnið upp fyrir flestum hér á landi að erlend lán í höndum óvita er myllusteinn um háls þjóðarinnar..."
Eins og t.d. Icesave lánin? Þau fara ekki í atvinnuuppbyggingu, jú afsakið í Bretlandi og Hollandi.
Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 18.1.2010 kl. 03:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.