Jólahugvekja um siðblindu

Nú þegar jólin ganga í garð er ef til vill gott að staldra við og íhuga hvers vegna jólaboðskapurinn og kristileg gildi eru orðin lítið annað en stofustáss í okkar þjóðfélagi.  Græðgi, frekja, svik og prettir hafa heltekið okkar samfélag.  En hvað er hér á ferð?  Margt bendir til að við höfum lent í klónum á siðblindum hópi stjórnmálamanna og viðskiptajöfra sem svífast einskis til að koma sínu fram.  Ef svo er, er það ekki hugmyndafræðin eða mennirnir sem hafa brugðist heldur höfum við orðið fórnarlömb alvarlegra persónuleikaröskunar.  

Nanna Briem skrifar grein um siðblindu í Geðvernd, tímarit Geðverndarfélags Íslands.  Það rennur kalt vatn á milli skinns og hörunds þegar maður les þessa grein og hún veitir ótrúlega innsýn inn í þau sjúku viðhorf og gildi sem einkenna siðblindu og virðast þrífast vel í okkar samfélagi.

Ég leyfi mér að vitna hér aðeins í grein Nönnu.  Lýsingin á einkennum siðblindra er sláandi:

"Vægðarlaust ryður hann sér braut gegnum lífið og skilur eftir sig slóð af brostnum hjörtum, væntingum og tómum veskjum.  Hann svífst einskis í eigin þágu, enda samviskulaus og ófær um að setja sig í spor annarra.  Reglur mannlegra samskipta og samfélagsins eru fótum troðnar án minnstu sektarkenndar eða eftirsjár.

Með dáleiðandi persónutöfrum dregur hann fórnarlömb sín á tálar en undir niðri er kaldlyndur svikhrappur, sem ráðskast með fólk á lævísan hátt og tekur ekkert tillit til tilfinninga annarra.  Hann er ófær um eðlilegt tilfinningalegt samband við aðra manneskju.  Þegar það hentar þykist hann vilja breyta sér eða bæta, en í raun er það lítið annað en leikaraskapur

Mest áberandi eiginleikar siðblindra geta verið persónutöfrar og sjálfsöryggi sem eru frekar jákvæðir eiginleikar.  Fólk fellur oft fyrir siðblindum við fyrstu kynni, en áttar sig fyrst seinna á dökkum hliðum persónuleikans."

Nanna bendir á rannsóknir sem sýna að siðblinda er þrisvar sinnum algengari hjá fólki í stjórnunarstöðum en í almennu þýði.  Þá virðist siðblinda þrífast vel í opnum og fámennum samfélögum þar sem reglur og eftirlit eru af skornum skammti.  Viðskiptaheimur sem byggir á hraða, skilvirkni, einföldum strúktúr og skjótri ákvarðanatöku er að mörgu leiti berskjaldaður fyrir siðblindum.  Eða eins og Nanna segir: "Fyrirtækin líta í hina áttina ef harðsvíruð og siðlaus aðgerð er arðbær, verðlauna hana jafnvel.  Þeir sem auka gróða fyrirtækisins eru gerðir að stjörnum, þó að aðferðirnar hafi verið mjög áhættusamar og jafnvel siðlausar.  Við slíkar aðstæður standa allar dyr opnar hinum siðblindu."

Og hvernig losa þjóðfélög sig við siðblinda?  Með því að afhjúpa og lögsækja hinu seku þar sem það á við.  Hinn siðblindi gerir sér aldrei grein fyrir að hann eigi neinn þátt í þeim skaða sem hann hefur valdið, allt er öðrum að kenna.

Gleðileg jól.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir magnaða grein.

Gleðileg jól.

HF (IP-tala skráð) 24.12.2009 kl. 12:50

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Já magnað, mann setur hljóðan. Gleðileg jól Andri en hinum, sem þú lýsir svo vel hugsa ég þegjandi þörfina.

Finnur Bárðarson, 24.12.2009 kl. 17:19

3 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Andri Geir. Takk kærlega fyrir upplýsandi grein. Óska þér og öllum lesendum bloggsins kærleiksríkra jóla.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 24.12.2009 kl. 17:33

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Sá heimildamyndina The Corporation fyrir stuttu síðan. Þar voru stórfyrirtæki sálgreind og kom í ljós að þau uppfylltu allt sem gerir einstaklinga siðblinda. Stórfyrirtæki eru undantekningarlaust siðblind.

Þetta er þjóðfélagið sem við höfum byggt upp.

Gleðileg jól.

Villi Asgeirsson, 24.12.2009 kl. 17:44

5 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Gleðileg jól..það er bara þannig að þetta hyski á þinginu sér enga galla á sjálfu sér..það telur sig vera yfir alla hafið..afhverju..hef ekki neina hugmynd...glæpahyskið eru embættismenn þjóðarinnar..og náttúrulega bankamennirnir...vona bara að við sjáum þetta hyski hérna aldrei aftur..mega rotna í helvíti mín vegna..en gleðileg Jól..og hugsum hvað gerðist á þessum góða degi...útrásarvíkingarnir eru væntanlega hjá djöflinum.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 25.12.2009 kl. 01:32

6 identicon

Þó ber að undanskilja ekki þá staðreynd að siðblinda fyrirfinnst í öllu fólki. Siðblinda er ekki læknanleg heldur er hún persónueinkenni.

Eitt er að tala um siðblindu einstaklinga en einnig er fyrir mér til fyrirbæri sem kalla mætti samfélagslega siðblindu.

Hinn siðblindi hræðist ekki enda skynjar hann ekki hættu, munurinn er þó að samfélagið þarf ekki að vera í slíku ástandi og of margir sérfræðingar þegja og spila sig þæga og góða þegna.

Einstaklingum með alvarlega siðblindu er þó læknisfræðilega ekki viðbjargandi og í því felst munurinn.

Síðan verðum við að gera ráð fyrir því að í ofanálag við siðblinduna, þá eru sumir þessir einstaklingar ekki einungis að nýta sér granvaraleysið í umhverfi sínu í von um gróða, heldur eru einnig til menn sem njóta þess að gera öðrum og jafnvel samfélaginu í heild, illt.

Þetta eru leiðinlegar umræður á jólanótt en þó nauðsynlegar, en maður er orðinn ónæmur fyrir þessu geri ég ráð fyrir.

sandkassi (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 07:23

7 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Takk fyrir fræðandi grein. Æði margt bendir til þess að einmitt siðblindan hafi heltekið viðskiptalífið og stjórnmálin og sé þar enn við lýði.

Jólakveðjur að norðan.

Arinbjörn Kúld, 25.12.2009 kl. 08:19

8 identicon

Athugið einkenni siðblindingja - sjálfsöryggið.  Á ensku er talað um con-men eða svikahrappa og con sem sögn - að blekkja.  Það er stytting úr Confidence men - menn (og konur) sem sjálfsöryggið hreinlega lekur af.  Þeir hafa jafnvel dáleiðandi áhrif, gætu til dæmis sagt, afsakið - en þú tókst töskuna mína, og þú myndir láta þá fá töskuna, þó hún sé alveg eins og þín, þó hún sé þín.

Hver er lausnin til betra þjóðfélags og minni þrælavinnu til að borga skuldir con-manna? 

Hættum að treysta öðru fólki blint.  Ekki láta frá okkur vald yfir eigin lífi og aðstæðum.  Takmarka vald ríkis og bæja eins og frekast er hægt.  Ekki trúa Boga og hinum andlitunum á sjónvarpsskjánum.  Ég veit að þau eru kunnugleg og sjálfstraustið lekur af þeim, en þetta fólk þekkir þig ekki og er alls ekki vinir þínir.  Það þarf ekki einu sinni að vera sammála því sem það er að lesa af skjávélinni, það er ekki að horfa í augun á þér, heldur lesa texta af skjávél. 

Ekki fleiri alþjóðlega sáttmála.  Ekki fleiri 'trúnaðarmál' opinberra embættismanna eða pólitíkusa, allt uppi á borðinu.  Ekki líða að ríkisstjórn taki bindandi ákvarðanir fyrir næstu ríkisstjórnir - því hvers konar lýðræði er það?

Óska ykkur gleði og friðar.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 25.12.2009 kl. 10:12

9 Smámynd: Sóldís Fjóla Karlsdóttir

Takk fyrir góða grein....Siðblinda ......hún er sárari og þyngri en tárum taki.

Gleðileg jól.

Sóldís Fjóla Karlsdóttir, 25.12.2009 kl. 12:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband