Þjóðartekjur dragast saman um helming á Íslandi

Þjóðartekjur á mann árið 2007 voru tæplega 48,000 evrur en verða rúmlega 24,000 evrur árið 2009.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni mældust þjóðartekjur* á mann: 47,708 evrur, 2007 og 36,274 evrur, 2008.  Ef við gefum okkur að þjóðartekjur dragist saman um 5% 2009 mælt í króunum og notum 180 kr. sem meðalgildi fyrir evruna fæst mat á þjóðartekjur á mann upp á 24,400 evrur fyrir 2009.

Þetta sýnir hinn raunverulega samdrátt í lífskjörum Íslendinga á 2 árum.  Fara þarf aftur til 1997 til að finna álíka tölulegt gildi (24,152 evrur) fyrir þjóðartekjur á mann og er þá ekki tekið tillit til verðbólgu.  Við höfum því líklega farið aftur um 20 ár í lífskjörum en þá voru menn ekki eins skuldugir og almenningur var ekki sligaður af erlendum lánum.

Helmingur af tekjustofnum þjóðarinnar eru horfnir og koma ekki aftur til baka vegna þess að þeir voru í raun fengnir að láni erlendis frá!   Á sama tíma margfaldast skuldbindingar ríkisins.  Þetta er hinn raunverulegi vandi.  

Við munum aldrei ráða við þetta ástand nema að við tökum ríkisbáknið til algjörrar uppstokkunar og minnkum umsvif hins opinbera og sníðum það að raunveruleikanum.

Við verðum að flokka þjónustu ríkisins og sveitarfélaga niður í tvo flokka: nauðsynlega og æskilega.  Síðan þarf að hagræða nauðsynlegri þjónustu og skera niður eða loka æskilegri þjónustu, alla vega tímabundið.

Þegar kemur að skattahækkunum þarf að vega og meta þær á móti aðgerðum sem innihalda enn meiri launalækkun ríkisstarfsmanna.  Þetta verður erfitt en nauðsynlegt.  Það er ekki hægt að sópa öllu undir teppið lengur og nota endalausar skattahækkanir og gengisfellingar til að komast hjá erfiðum og óvinsælum aðgerðum. 

Ef ekki er gripið til nauðsynlegra aðgerða strax má búast við 15% gengisfalli 2010.  Erlend gengisskráning krónunnar upp á 220 kr. evran er því miður ekki svo óraunveruleg! 

Nú er að duga eða drepast, eins og sagt er! 

* Tæknilega séð er hér um landsframleiðslu að ræða, þó ég noti hugtakið "þjóðartekjur", sem mér finnst þjálla.

 

 


mbl.is Þýskaland þarf tvö ár í viðbót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Guðjónsson

Þetta þýðir auðvitað mikið atvinnuleysi í einhver ár því tekjurnar standa ekki undir því að vera með nómenklatúrufólkið svona margt og iðulega á veglegu framfæri ríkis eða sveitarfélaga. Kaupið er ekki í takt við þá hagsmuni sem eru í húfi. Svona er þetta um allt þjóðfélagið. Yfirborgað fólk og yfir borguð verktakafyrirtæki. Dæmið um Flugstöðina í Stykkishólmi er kannski mergur málsins en þegar búið var að eyða a.m.k milljarði í völl og flugstöð þá lagðist áætlunarflugið niður nánast daginn eftir víglu.

Einar Guðjónsson, 15.11.2009 kl. 14:00

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Kæri Andri 

Þú veist þetta örugglega - en  landsframleiðsla er alltaf gerð upp í eigin mynt landa. Þetta er gert  svona í öllum löndum heimsins. Ef þú vilt mæla þetta í erlendri mynt þá verður þú að mæla kaupmátt landsframleiðslu í erlendri mynt. Það er allt annað.  

Ef þetta væri svona einfalt eins og þú ert að gefa í skyn þá væru þjóðartekjur (eins og þú vilt kalla landsframleiðslu) Bandaríkjamanna í evrum aðeins svipur hjá sjón miðað við árið 2002, því evran hefur hækkað um 100% gegnvart dollar á þessu tímabili.

En sem betur fer eru þjóðartekjur gerðar upp í eigin mynt landanna og ekki í erlendum gjaldmiðlum því þá þyrftu hagstofur að stunda gjaldeyris-spámennsku við að velja þá mynt sem kemur best út á blaði. Þá myndu öll lönd evrusvæðis vilja gefa þjóðartekjur upp í dollurum, en þó allra helst í íslenskum krónum. Það kæmi nefnilega best út á blaði.  

Ef kaupmáttur krónunnar erlendis lækkar, þá kaupa menn frekar innlenda framleiðslu og hætta að spreða erlendis, ef mögulegt er. Gengisfelling virkar því eins og til er ætlast. Við viljum ekki að allir fari með alla peningana til kaupmanna erlendis.

It just plain works. En svo mun þetta breytast aftur þegar við höfum efni á því. En ekki fyrr.  

Helmingur af tekjustofnum þjóðarinnar er ekki horfinn.

Það sem er horfið er froða þeirra "immaterial"-eigna sem menn héldu að þeir ættu. Og svo auðvitað öll fánýta viðskiptavildin sem var migið langt inn í ársreikninga útrásarmanna. Það eru til nákvæmlega jafn mikið af peningum og áður. En það sem banka- og útrásaraular keyptu fyrir peningana er hins vegar ónýtt. Mjólkin sem þeir keyptu var og er enn ónýt. Peningarnir eru núna hjá kaupmanninum. Hann hlær alla leiðina í bankann með þá. Hlær að aulunum. 

Það sem reyndist þjóðarbúinu illa var að hafa heilan her hálfvita vinnandi við að koma landinu á hausinn. Banka- og útrásarbullur sem gátu ekki neitt og áttu ekki neitt. Uppblásnar beljur með vængi sem drulla nú yfir þjóðina á fluginu. Þetta lið ætti að vera í handjárnum núna.  

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 14:35

3 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þarfur og góður pistill hjá þér Gunnar. Ótrúlegt hvað menn ætla seint að skilja samhengi hlutanna. Meginhluti þjóðarinnar  lifði í einhverju draumalandi í mörg ár og raunsæismenn voru kallaðir afturhaldsseggir og úrtölumenn, ef ekki annað verra.

Þórir Kjartansson, 15.11.2009 kl. 16:13

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gunnar,

Þetta eru nú tölur frá Hagstofunni, hún setur þetta svona upp í evrum, krónum og dollurum.  Þetta eru auðvita bara hráar tölur sem ekki hafa verið leiðréttar miðað við verðlag.  AGS birtir oft svona tölur í dollurum (GDP per capita, nominal).  Auðvita fæst betri samanburður ef við miðum við PPP en þá er samanburðurinn við útlönd enn óhagstæðari.  Miðað við GDP per capita, nominal samanburði í dollurum sem AGS birtir höfum við yfireitt verið í 5-6 sæti í röð landa en á PPP mælikvarða lendum við í 10-12 sæti. (þetta er fyrir hrun samanburður)

AGS birti nýlega spá yfir GDP per capita, nominal í dollurum fyrir 2014 og þar lendir Ísland í 18. sæti af 20 ríkustu iðnríkjum á eftir Ítalíu en á undan Spáni og Grikklandi.  Á PPP mælikvarða verðum við líklega komin enn neðar og um 2020 hafa lönd eins og Ísrael náð okkur.

GDP per capita segir ekki alla söguna en það er hraðabreytingin í þessum mælikvarða sem er svo athyglisverð.  Við höfum alltaf verið um 30-40% fyrir ofan EB meðaltalið í þessum samanburði en 2010 er líklegt að við verðum nálægt meðaltalinu.  

Það má líka líta á þessar tölur öðruvísi og segja að landsframleiðsla upp á 36,000 dollara eins og hún verður í ár sé líklega of há miðað við okkar atvinnuvegi og ástand og því sé líklegt að krónan eigi eftir að falla enn meir.  

Það er hins vegar mjög erfitt að nota þessar tölur til að draga þá ályktun að krónan eigi eftir að styrkjast.

Auðvita eru hér jafnmargar krónur og áður fyrr en þær eru ekki lengur gjaldgengur gjaldmiðill fyrir utan landsteinana.  Við höfum notað krónuna til að falsa okkar stöðu á meðal annarra hagkerfa og lifað um efni fram.  Bankahrunið hefur þvingað fram leiðréttingu á þessu.  Hin mikla spurning er á hvaða gengi á að taka upp evru?

Einar,

Takk fyrir innlitið.  Taktu launakostnað OR sem er 5% hærri á öðrum ársfjórðungi 2009 en 2008. Þetta er ekkert nema uppskrift á verðbólgu á næstu árum.   

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.11.2009 kl. 16:22

5 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er klárt Andri að það væri ódýrra núna fyrir utanaðkomandi aðila að koma og kaupa allt íslenska hagkerfið. Það er ódýrara í erlendri mynt eftir að gangið féll. Samskonar mælingar eru gerðar á t.d. verðlagi á milli landa ESB og EES. Þá kemur í ljós að 4-5 lönd voru allt í einu orðin miklu dýrari en Íslands á milli áranna 2007 og 3/4 af árinu 2008. Þetta mun líklega breytast enn meira þegar allt árið 2008 og fyrri hluti 2009 verða teknir með næst.

En þetta segir ekki neitt um hvað það kostar að lifa, anda og fara á klósettið sem lifandi íbúi og skattgreiðandi innan í löndunum. Þetta segir einungis hvaða kaupkraft þeir hafa í öllum hinum löndunum sem könnunin náði yfir. Það er nefnilega í raun verið að mæla samkeppnishæfni verðlags á milli landanna. Það sama gildir um GDP tölurnar sem þú nefnir. Ísland er allt í einu orðið miklu samkeppnishæfara miðað við önnur lönd. Þessi aukna samkeppnishæfni kom vegna þess að gengið féll og það var lífsnauðsynleg.

En gengið er margbreytilegt - eins og þú veist - og getur hækkað aftur eða þá að evran þín gæti loksins hrunið um 30-40% eins og allir hér í ESB óska sér svo heitt og innilega svona áður en þeir verða hengdir uppi í þessum evru-loftbelg sem þeir svífa stjórnlaust um uppi í himnum uppi.  

Raunverulegar GDP mælingar eru alltaf í föstum verðum og þú veist það vel Andri. PPP þarf svo að koma til og jafna út gengisbreytingar og flökt

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 18:25

6 Smámynd: Sigurður Viktor Úlfarsson

Spurningin er líka hvernig þetta dreifðist á þjóðina.

Sigurður Viktor Úlfarsson, 15.11.2009 kl. 18:46

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Já Þórir.

Þetta er ESB elítan úr bönkunum, fjármálafyrirtækjunum, hagsmunasamtökum og háskólunum. Fólk sem er sérfræðingar í gírkössum. Þeir gíra 10 kall sem sparifjáreigendur trúa þeim fyrir upp í 10.000 kall og fara svo á hausinn í Badedas freyðibaði velgengi og "glæsilegs árangurs". Þú borgar. Þetta er svona í öllum ESB löndunum. 

Pappírsmennirnir á höfuðborgarsvæðum á Íslandi vilja ekki missa völdin og leita að nýjum tækifærum í aðalleikhúsi einskisnýtininnar í Brusselveldinu. Þeir öskra á meira fjármagn. Þú borgar tapið en þeir hirða gróðann.

Það hvarflar aldrei að þessu fólki að það eru næstum engin lánshæf fyrirtæki eftir á Íslandi sem fljúgandi-banka-beljur Íslands fylltu ekki með ódýru lánsfjár-drasli sem þessi fyrirtæki áttu aldrei að fá. Þeir ólu upp vesæl og morkin tré sem taka pláss í skóginum. Þau eru því mörg tæplega á hausnum núna og nota brennsluspritt á hverjum degi til að reyna að þvo bólugröftinn burt úr andlitum sér. Bólugröftinn eftir fjármálasnillingana. 

Það eina sem hefur virkað og sem hægt er að treysta er íslenska krónan okkar. Hún vinnur núna dag og nótt við að lagfæra það sem þessir glötuðu snillingar gerðu um borð í draugaskipinu Spila- og Skjaldborgin M/S.  

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 19:00

8 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Sigurður,

Góður punktur.  Sumar stéttir eins og t.d. sjómenn og lögfræðingar eru í miklu betri málum en t.d. verslunarmenn eða arkitektar.

Í opnu hagkerfi eins og Íslandi sem er með gjaldeyrishöf er þeir sem selja sína vöru og þjónustu beint til útlendinga og koma inn með gjaldeyri alltaf í sterkari stöðu en aðrir.

Vandamálið er með alla þessa háskólamenntuðu kynslóð sem er að vaxa út grasi.  Margir geta haslað sér völl á erlendum atvinnumarkaði þar sem nettókaup eftir skatta er orðið hærra en brúttókaup á Íslandi.  Svo eru flest lönd betur hagstýrð en Ísland svo skatttekjur skila sér í betri þjónustu við borgarana.  

Það er erfitt að reka samkeppnishæft hagkerfi með Noreg sem næsta nágranna.  2014 spáir AGS að þjóðartekjur á Íslandi verði um 37,600 dollarar en um 91,700 dollarar í Noregi.  Hvert 10 ára barn getur séð að það eru meiri líkur á betri efnahagslegum lífskjörum í Noregi en á Íslandi í framtíðin (nema að olía finnist á drekasvæðinu)  

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.11.2009 kl. 19:06

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Hvernig dreifðist tapið Sigurður? Prófaðu: ICESAVE - og massagjaldþrot snillinga.

Núna vita allir hvernig gróðanum var dreift um jarðir Borgarfjarðar og í gleymd skuldabréf. Svo ekki þarf að spyrja að því. 

Skuldabréf er skjal þar sam á stendur ritað: ég skulda þér, mikið. I owe you.

Hver á þann pappír núna. ÞÚ!

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 19:15

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

"Margir geta haslað sér völl á erlendum atvinnumarkaði þar sem nettókaup eftir skatta er orðið hærra en brúttókaup á Íslandi."

Og þar sem lifikostnaður er miklu miklu hærri en á Íslandi. Er þetta snilld?

"Margir geta haslað sér völl á erlendum atvinnumarkaði"

Nei, það geta þeir ekki. Þar er enga atvinnu að fá. 

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 19:20

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gunnar,

Afburðarfólk getur alltaf fengið vinnu. Ég er nýkominn úr ferð frá Bandaríkjunum þar sem ég hitti topp nemendur sem eru að útskrifast í vor og margir voru komnir með atvinnutilboð sumir fleiri en eitt.  Olíufyrirtæki eru t.d á höttunum eftir afburða jarðfræðingum og eðlisfræðingum og bankar á Wall Street og London eru byrjaðir aftur að ráða stærðfræðinga og viðskiptafræðinga.  

Er kaupmáttur nú orðinn hærri á Íslandi en í Bandaríkjunum? Varla.  Ekki held ég að bílar, tæki, tól eða matur sé ódýrari á Íslandi en erlendis.  Sumt er ódýrara á Íslandi sérstaklega tannlækningar og útkeypt vinna iðnaðarmanna en það er líka staðan í Tyrklandi og á Indlandi.

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.11.2009 kl. 19:43

12 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Afburðafólk?

Ertu að grínast Andri? 

"Ekki held ég að bílar, tæki, tól eða matur sé ódýrari á Íslandi en erlendis."

Það er ekki nóg að "halda" Andri. Menn þurfa að vita. Ísland er í slæmri stöðu vegna þeirra sem "héldu svo mikið" en vissu raunverulega minna en ekki neitt

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 20:11

13 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Gunnar,

Nei ég er ekki að grínast, hins vegar veit ég ekki hvernig þú skilgreinir afburðafólk?

Ég get sagt þér með vissu að bílar eru dýrari á Íslandi en í Bandaríkjunum.

Ég er hins vegar sammála þér að vankunnátta er mikið vandamál hér á landi.  

Hins vegar er betra að viðurkenna að maður "haldi" en að segjast "vita" þegar maður veit ekkert

Andri Geir Arinbjarnarson, 15.11.2009 kl. 20:31

14 identicon

Þetta er góðar umræður hjá ykkur. Ég veit, að í Noregi er flest miklu dýrara en á Íslandi. Mér skilst líka, að Ísland sé orðið ódýrara fyrir ferðamenn en flest eða öll lönd norðan Alpafjalla. Gengisskráning krónunnar er í dag miklu nær því, sem getur talist heilbrigt en meðan hún var sem sterkust. Ég held að þú Andri, sért full bjart(eða svart-)sýnn varðandi gengisþróun. Ég held að krónan geti varla farið miklu neðar, nema hér verði til langframa meiri verðbólga en í öðrum löndum. Raungengi hennar hlýtur að vera lægra nú en nokkurn tímann á lýðveldistímanum.

Ég les mikið um alþjóðastjórnmál og efnahagsmál í "the Economist." Samt er ég svo sljór, að ég get ekki sagt, hvort tölurnar, sem tímaritið birtir í töflu aftast í hverju hefti um GDP, byggja á því, að skoða þjóðar(eða lands-)framleiðslu eins og hún kemur út í heimamynt, umreikna yfir í dollara og þar með sé það komið! Getið þið mér fróðari menn upplýst hvort þannig sé í pottin búið?  Á þannig mælikvarða hlýtur Ísland að hafa hrapað allillilega á síðustu tveimur árum. PPP er svo aftur réttari mælikvarði. Þjóðartekjur Íslendinga hafa allavega ekki hrapað um helming á síðustu 2 árum - ekki að raunvirði.

Hitt er umhugsunarefni, ef gróðabrall (bókhaldslegur hagnaður) bankanna og eignarhaldsfyrirtækja útrásarvíkinganna birtist, meðan veislan stóð, tekjumegin í þjóðarbókhaldinu. Ég velti þessu oft fyrir mér, meðan veislan stóð, og tölur birtust um aukningu landsframleiðslu í % pr. ár. Hver maður hlýtur að sjá, að sé svona froða talin með í efnahagsbókhaldi þjóðarinnar, og þegar bankakerfið er orðið margföld stærð þjóðarbúsins, gerist þjóðarbókhaldið harla léttvægt og segir litla sögu af því, sem raunverulega er að gerast í efnahagslífinu.

Mér fannst magnað að fylgjast með því undanfarin ár, að Össur og Marel, sem voru nánast einu fyrirtækin á íslenska verðbréfamarkaðnum síðustu árin fyrir hrun í raunverulegri verðmætasköpun, þessi tvö fyrirtæki voru kannski að græða nokkra tugi milljóna, í mesta lagi fá hundruð milljóna króna á ári, meðan froðufyrirtækin voru að skila hagnaði uppá milljarða eða tugi milljarða króna. Ég hafði oft orð á þessu í yfirlætislegum tón, en átti ekki von á að bankakerfið færi lóðbeint á hausinn. Samt vissi maður, eins og ég hygg að flestir hafi hljótað að vita, að veislan yrði bráðum búin og að hlutabréf hlytu að falla gífurlega mikið fyrr en síðar, en þá væntanlega síst í Marel og Össuri.

Þessi stærðfræðiséní, sem þú segir Andri, að WallStreet sé að leita að, eru vottur um það, að WallStreet ætlar í skjóli gífurlegrar innspýtingar "fjármagns"  úr ríkissjóði og/eða seðlabanka Bandaríkjanna að halda áfram með "business as usual". Þ.e. afleiðuviðskipti, sem eru þeirra sérstaka afbrigði af froðumyndun. Með afleiðum var m.a.s. hægt að gera verðmæti úr fasteignaveðlánum, sem allir vissu, að aldrei yrðu greidd. The Economist talaði um hina kraftmiklu sköpun á Wallstreet, þegar þeir fjölluðu í tímaritinu um afleiðuviðskipti fyrir hrun. Nær hefði verið að tala um efnahagslega hryðjuverkastarfsemi. Sumar afleiðurnar voru svo flóknar, að enginn skildi, hvað þær gengu útá, nema í besta falli stærðfræðisnillingurinn, sem skóp þær. Mér þykir sem þar fari góður biti í hunds kjaft, ef stærðfræðisnillingar ætla áfram að láta Wallstreet misnota kunnáttu sína til illra verka.

S.Á. (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 22:27

15 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll S.A

Tölur um landsframleiðslu eru alltaf magntölur. Tonn, tímar osfv. Þær eru alltaf í eigin mynt landanna á föstu verðlagi (verðbólga hreinsuð út). Það sem skiptir mestu máli er hvað það er sem þjóðin framleiðir og selur erlendis til að afla peninga í kassann. Þeir peningar sem koma frá grunnatvinnuvegum lítilla hagkerfa eru þeir peningar sem notaðir eru til að byggja upp restina af hagkerfinu með.

Það er hægt að reikna verðgildi landsframleiðslu yfir í aðrar myntir. Það er gert til að fá alþjóðlegan samanburð. En þetta verðgildi hefur þó breytilegt gildi efir því hvar það er notað (hvar kaupmátturinn er notaður).

En fyrst verður að eyða gengissveiflum, Það er gert með því að nota langtíma jafnvægisgengi. Þá er hægt að reikna yfir í kaupmátt þjóðarframleiðslu í hinum ýmsu gjaldmiðlum.

"Nominal" verðmæti landsframleiðslu, eins of Andri er að tala um (það sem stendur á blaðinu í dag og er ekki endilega það sama á stendur þar á morgun) gefur ekki rétta mynd. Nominal verð eru "spot prices". Þar á eftir að leiðrétta fyrir svo mörgu.

Sjá smá útskýringar hér: Purchasing power parity

Gunnar Rögnvaldsson, 15.11.2009 kl. 23:08

16 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Takk fyrir innlitið SÁ. 

Auðvita er þetta "snapshot" af stöðunni í dag en engu að síður segir þetta heilmikið um hvað er að gerast hér á landi í samanburði við erlend lönd.  Fólk þarf ekki annað en að fara til Kastrup og kaupa sér kaffibolla á 40 dkr sem gera 1000 kr.  En svona er þetta í fátækum löndum, heimagjaldmiðilinn dugar illa erlendis og allt er dýrt þar.  Við erum strax farin að sjá þetta í verði flugmiða sem eru nú ódýrari keyptir í krónum á Íslandi en í evrum erlendis á sömu dögum.  Næsta skref er að hótelgisting verður ódýrari borguð í krónum af Íslendingum en í evrum, alveg eins og í Egyptalandi.

Ef við værum ekki með þennan skuldabagga og jöklabréf þá væru við í miklu betri málum og útflutningsvegirnir gætu alveg séð okkur fyrir sómasamlegum lífskjörum.  Krónan væri hærri og engin gjaldeyrishöft.

Það eru þessar erlendu skuldir sem hafa sett allt á annan endann hér og koma okkur í vítahring lækkandi launa, hækkandi skatta og stöðnunar.  Peningar sem ættu að fara í uppbyggingu fara í vaxtakostnað ekki aðeins hjá hinu opinbera heldur einnig hjá fyrirtækjum og einstaklingum.  Því er framtíðin hér á landi, skattar, skuldir og lág laun.

Ég get ekki séð að krónan eigi eftir að styrkjast neitt að ráði næstu árin og kaupmáttur launa á eftir að standa í stað eða minnka.  Gjaldeyristekjurnar fara í að borga skuldir fyrst og svo í velferðarkerfið og þá er ekkert eftir til auka kjör launamanna.  Þetta er uppskrift á verðbólgu.

Fólk verður að gera sér grein fyrir að útflutningstekjur okkar sem renna til Íslands munu dragast saman mjög mikið á næstum árum þar sem útlendingar eiga fyrstu kröfu á þær.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 16.11.2009 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband