Að fá að deyja í eigin rúmi - mannréttindi eða lúxus?

Það er athyglisverð grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem kemur fram að biðlistar á hjúkrunarheimilum hafa styst vegna þess að vistunarmat hefur verið hert.  Þetta er áhyggjuefni. 

Áhyggjulaust ævikvöld á Íslandi er fjarlægur draumur fyrir marga.  Síðustu mánuðir og ár margra Íslendinga eru allt annað en áhyggjulaus.  Aldraðir sem missa heilsuna eiga ekkert val.  Þeir eru miskunnarlaust keyrðir inn í kerfi þar sem allt er mælt og metið úr frá stöðlum settir af opinberum stofnunum.  Lítið er um reisn og virðingu.  Margar eru sorgarsögurnar um einstaklinga sem sitt síðasta ár eru "heimilislausir", keyrðir á milli stofnanna og spítala, settir í dagvistun eða parkerað á Landakoti á herbergum sem þeir deila með öðrum á virkum dögum og eru síðan sendir heim um helgar. 

Rótleysi og skipulagsleysi einkennir mikið að þjónustu okkar við aldraða.  Allt gengur út á að uppfylla staðla, tölfræði og kröfur stofnanna, aldraðir koma síðast.   Enginn vill taka við þessu fólki, allt er gert til að koma öldruðum út af einni stofnun og inn á aðra. Við virðumst sætta okkur við að setja ættingja og aldraða á hrakhóla.

Framtíðin er heldur ekki björt.  Öldruðum á eftir að fjölga hér á landi á sama tíma og efnahagur og lífskjör hrapa.  Eitthvað verður að gefa eftir og því miður eru aldraðir í eldlínunni sem fyrr.  Skattar á lífeyri þeirra og sparnað voru þeir fyrstu til að hækka og fækkun legurýma á Landakoti var efst á lista ráðherra. 

Aðeins þeir sem spara til elliáranna og eru efnameiri geta keypt sig frá verstu og mest niðurlægjandi hlutum þessa smánarkerfis.  Í framtíðinni fá aðeins þeir sem eiga ekkert eða þeir sem eru vel efnaðir  sómasamlega þjónustu.  Hinn mikli meirihluti verður að sætta sig við miskunnarlaust "vistunarmat" ókunnugra.

Á Íslandi er það ekki talið til mannréttinda að fá að deyja í eigin rúmi.  Nei, það er lúxus sem er aðeins á færi fárra.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lady Elín

Þetta er eins og talað út úr mínu hjarta. 

Vegna þessa vistunarmats bíður amma mín í von og ótta um hvað verður um sig.  Hún er algerlega ófær að sjá um sig en vegna þess að hún býr í þjónustuíbúð þar sem hún fær dagvist virka daga og eitt og annað frá félagsþjónustunni þá er hún ekki talin nógu slæm til að þurfa á hjúkrunarrými að halda.  Það er verið að fækka dvalarrýmum og auka við hjúkrunarrými en á meðan er ekki litið við neyð hennar. 

Hún var í hvíldarinnlögn rétt fyrir jól og svo fengum við að koma með hana aftur yfir jólin. Amma var svaklega fegin því, því að um hátíðir er engin félagsþjónusta að telja og hún hefði þurft að vera ansi mikið á eigin spítur.  En við fengum ekki að hafa hana lengur í hvíldarinnlögn þó okkur væri það boðið. Því ef hún hefði verið lengur þá hefðum við misst dagvistina fyrir hana.  Það myndi þýða að hún væri algerlega á eigin spítur á daginn þegar hún kæmi heim og enginn til að sjá um að hún borðaði eða annað.

Þetta er ómannúðlegt!

Lady Elín, 11.1.2010 kl. 13:47

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þessi hópur er auðveldasta skotmarkið, mjög dapurlegt að ekki skuli vera meir reisn og samkennd í þessu blessaða þjóðfélagi.

Finnur Bárðarson, 11.1.2010 kl. 16:31

3 Smámynd: Kama Sutra

Andri

Þar sem ég er ekki lengur áskrifandi að Mogganum, er einhver möguleiki á að þú getir linkað á þessa grein?  Eða er það bannað?

Kama Sutra, 11.1.2010 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband