Páskaegg fullt af sköttum! Hér eru tölur sem ekki má tala um!

25,000 kr. aukaskattur á mánuði á hvert heimili 2009, aðrar 24,000 kr. 2010 og enn aðrar 20,000 kr. 2011, samtals aukaskattbyrði upp á 69,000 kr. á mánuði á hverja 4 manna fjölskyldu. 

Hvaða íslensk heimili ráða við þetta? 

En einmitt svona hljóma skattatillögur írsku ríkisstjórnarinnar sem lagðar voru fram í aukafjárlagafrumvarpi fyrir írska þingið 7. apríl síðastliðin.  Þar er enn hert á aðhaldsaðgerðum sem tilkynntar voru fyrir nokkrum mánuðum.

Með þessum aðgerðum ætla írsk stjórnvöld að ná halla á ríkisfjármálum úr 12.75% niður í 10.75% fyrir 2009 og niður í 3% 2013.  Hallinn á Íslandi er um 13% og þarf að fara niður í 10% fyrir 2009 og  í 0% 2012 samkvæmt áætlun AGS og íslenskra stjórnvalda. 

Írar hafa lagt fram ítarlegt plan hvernig á að brúa hallann frá 12.75% niður í 3% á 4 árum.  1/3 kemur í formi skattahækkana og 2/3 í formi niðurskurðar.  Aðhaldsaðgerðir verða mestar 2009 en fara síðan stigminnkandi fram til 2011.  Ekki ætla ég að fara út í þessar aðgerðir í smáatriðum en þeim er gerð mjög góð skil á skiljanlegu máli á vef fjármálaráðuneytis írsku ríkisstjórnarinnar.

En hver er staðan á Íslandi nú 2 vikum fyrir kosningar?  Ríkisfjármálin má ekki ræða nema á klisjukenndan hátt.  Ekkert plan virðist vera til en þó er tíminn skemmri en hjá Írum!  Niðurskurður og skattahækkanir hér á landi verða einhverjar þær verstu sem sést hafa í Evrópu í seinni tíð.  En samt er þetta ekki kosningamál?  Hvers vegna?

Þegar rýnt er í tillögur Íra er alveg ljóst að það er feigðarplan að ætla að keyra ríkishallann niður í 0% 2012.  Heimilin í landinu, fyrirtækin og krónan verða lögð í rúst með svo áætlun.  Það er því nauðsynlegt að endurskoða samninginn við AGS sem fyrst og fara fram á að við fylgjum fordæmi Íra og fáum að lækka hallann niður í 3% 2013 en ekki 0% 2012.  Þetta er hið mikla mál sem ætti að vera eitt aðalkosningamálið í dag. Ef þetta verður ekki gert verða áætlanir svo sem 20% niðurfelling á skuldum skammgóður vermir.  Allt sem sparast þar fer beint aftur til ríkisins ekki sem vextir en sem skattar. 

Það úrræðaleysi og sú ringulreið sem virðist umlykja íslenska stjórnmálamenn í dag á eftir að verða þjóðinni dýr.  Það hlýtur að vera krafa kjósenda í lýðræðisríki að flokkarnir hafi fastmótaða stefnu í ríkisfjármálum og sýni ábyrga afstöðu gagnvart AGS sem tekur mið af þjóðarhag. 

Strax að stjórnarmyndun lokinni mun AGS þrýsta á ný stjórnvöld að leggja fram neyðarfjárlagafrumvarp fyrir Alþingi í byrjun maí

Þar verða veltuskattar stórauknir, hátekjuskattur og eignarskattur innleiddir, ásamt hækkun á öllum öðrum sköttum.  Laun opinberra starfsmann verða lækkuð um 10% og þjónustugjöld hækkuð og ný innleidd. 

Það þýðir ekkert að setja hausinn í sandinn.  Þeir sem ekki trúa mér þurfa ekki annað en að líta út fyrir landsteinana og skoða hvað er að gerast t.d. í Lettlandi og Írlandi.  Þar hafa stjórnvöld unnið faglega og tímanlega að sínum aðgerðum og upplýst sína borgara um hvað gera þurfi. 

Gleðilega Páska.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það er þá bara stuð í vændum. Aðrar kosningar að ári líklega því fólk mun ekki sætta sig við þetta.

Arinbjörn Kúld, 12.4.2009 kl. 08:54

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Brúa þarf hallann hjá því verður ekki komist en hvernig og á hvað löngum tíma er spurningin sem flokkarnir þurfa að svara. 

Hver verða hlutföllin milli skattahækkana og niðurskurðar?  1/3 og 2/3 eins og Írar völdu eða eitthvað annað?  Hversu langan tíma höfum við, 3 eða 4 ár og þarf hallinn að fara niður í 0% eða getum við samið um 3%.  Þetta eru hinar raunverulegu spurningar sem þarf að svara áður en haldið er í aðgerðir til að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum.  Annars mun dæmið aldrei ganga upp.

Aðeins USA getur prentað peninga til að "bjarga" sér þar sem dollarinn hefur stöðu "reserve currency". 

Andri Geir Arinbjarnarson, 12.4.2009 kl. 09:37

3 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Hrollvekjandi framtíðarsýn og ekki hvað síst fyrir að stjórnmálamenn tala ekki um þetta.

Ragnhildur Kolka, 12.4.2009 kl. 09:57

4 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Já þetta er hrollvekjandi. Þakka þér fyrir pistilinn Andri. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á þessu á blogginu hjá mér.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 12.4.2009 kl. 12:06

5 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jakobína,

Endilega.  Fólk þarf að gera sér grein fyrir hinu raunverulega ástandi fyrir kosningar.

Andri Geir Arinbjarnarson, 12.4.2009 kl. 12:27

6 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Sæll Andri, ég verð að segja að þetta var hrollvekjandi pistill hjá þér. Tek undir með Jakobínu og setti þetta einnig á mína síðu í þeirri von að sem flestir velti málinu fyrir sér.

Gunnar Skúli Ármannsson, 12.4.2009 kl. 19:07

7 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Hrollvekjan felst auðvitað ekki í því sem þeir sem taka við völdum eftir hrunið - telja sig knúna til að gera - - heldur í því að við sitjum uppi með hrun sem framkallað er að spillingu og viðskiptaglæpum sem voru drifnir áfram og réttlættir af öfgatrúboði Frjálshyggjunnar í boði Viðskiptaráðs og Sjálfstæðisflokksins . .

glæpurinn liggur hjá Sjálfstæðisflokknum, Viðskiptaráði og siðspilltum mútu-stjórnmálum og gersamlega samviskulausum stjórnendum fjármálafyrirtækjanna . . .

Benedikt Sigurðarson, 12.4.2009 kl. 21:02

8 Smámynd: doddý

hæ andri - takk fyrir þennan pistil, ég rataði til þín í gegnum gunnar skúla. ég held ég sé sammál kúld, við sjáum fram á anarkí. kv d 

doddý, 12.4.2009 kl. 21:10

9 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Sammála Benedikt hér að ofan. En ég er ekki viss um að samanburður við evrulönd eða evrutengd lönd sé alveg sanngjarn - ekki geta þessi lönd lækkað gengið hjá sér.

Björgvin R. Leifsson, 12.4.2009 kl. 22:36

10 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Andri

Frábær pistill, þetta verða allir að lesa.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 13.4.2009 kl. 00:02

11 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Hrollvekjandi lesning.  Ég vona að ég megi benda á pistilinn þinn á mínu bloggi líka, þetta er þörf lesning. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 13.4.2009 kl. 01:02

12 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Björgvin,

Það er rétt að samanburður við önnur lönd verður aldrei fullkominn.  Hins vegar breytir það ekki því að þessi mál verður að ræða.  Við erum þar sem við erum og verðum að fara að horfa fram á veg.

Við getur auðvita fellt gengið enn frekar sem mundi minnka þrýsting á að lækka laun.  En ef það er stefna stjórnvalda/flokkanna þá þurfa kjósendur að fá að vita það.  Gengislækkun virkaði vel fyrir 30 árum þegar öll lán útflutningsfyrirtækja voru í óverðtryggðum krónum.  Nú þegar þau eru einnig í gjaldeyri þá skilar gengisfelling sér ekki að fullu í betri afkomu fyrirtækja og þar með hærri skattstofni til ríkisins.  Að lokum þurfum við alltaf að brúa bilið sama hvað gjaldeyri við mælum það í. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 13.4.2009 kl. 06:47

13 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sé þessi "sviðsmynd" þín rétt, held ég satt best að segja að við verðum að hugsa aðeins út fyrir kassann hvað lausnir varðar!

Ég benti á leið nauðasamninga strax í haust þegar ég efaðist um burði okkar til að komast út úr vandanum sem við erum í. Tekjutap ríkisins er eitt og sér gífurlegt vandamál og það gerir "blandaða leið VG" (skattahækkanir & niðurskurð) líklega nauðsynlega. Útfærslan á slíkum hækkunum og niðurskurðinum er síðan hægt að deila um. Til viðbótar við tekjutap ríkissjóðs bætast síðan við vextir og afborganir af erlendu lánunum sem við sitjum uppi með. Stærðargráðan á halla ríkissjóðs - 30-40% - gerir það að verkum, að skattahækkanirnar og niðurskurðurinn verða svo miklar að við ráðum tæplega við það ástand.

Skattahækkanirnar ganga af heimilunum og fyrirtækjunum dauðum, minnka þjóðarkökuna enn meira en orðið er og koma í veg fyrir nýsköpun og þann dugnað sem við þurfum á að halda. Lausnin er fólgin í því að framleiða meira og flytja meira út, en ekki í að kæfa einstaklingsframtakið, dugnað og nýsköpun og minnka kökuna sem er til skipta milli samneyslu og einkaneyslu.

Niðurskurðurinn hjá hinu opinbera gerir það að verkum að þjónustustig í menntun og heilbrigðisþjónustu færist áratugi aftur í tímann. Stór hluti þjóðarinnar mun ekki láta sér þetta lynda fyrir sig og sína afkomendur og flytur af landi brott. Í þjóðflutningum af þeirri stærðargráðu er 10-20% flytja er engin lausn fólgin, heldur enn meiri vandi. Það verður unga og duglega fólkið sem fer á meðan þeir sem miðaldra eru halda kyrru fyrir í húsum sínum og eldri borgarar og þeir sem minna mega sín verða eftir í landinu. Í kjölfarið verður síðan að hækka skattana á þá sem eftir verða og vinnu hafa. Við endum í óleysanlegum vítahring, sem lönd Austur-Evrópu hafa þurft að upplifa á undanförnum árum.

Því er að mínu mati aðeins einn kostur í boði, þ.e.a.s. að semja við lánadrottna og AGS um málið. Takist samningar ekki verður að segja upp samstarfinu við AGS og reyna aðra leiðir út úr þessum vanda.

Sú lausn gæti m.a. falist í atvinnuuppbyggingu, sem byggir á náttúruauðlindum okkar, jarðorku, vatnsorku og olíu. En ekki er heldur hægt að útiloka nauðasamninga við lánadrottna, þar sem hagsmundir Íslendinga verða í fyrirrúmi. Miðað við það ástand sem þú ert að lýsa hér að ofan er jafnvel tímabundin einangrun lands í kjölfar slíkra nauðasamninga skárri kostur en óhóflegur niðurskurður og skattahækkanir?

Guðbjörn Guðbjörnsson, 13.4.2009 kl. 12:27

14 identicon

Það er ekki talið vænlegt fyrir kosningar að halda niðurskurðarhnífnum mikið á lofti, betra að bera hann innanklæða eins og sannur leigumorðingi og reka hann svo í bak kjósenda þegar kosningar eru afstaðnar. Þá er öllum sama um alþýðuna. Við vitum hverskonar stjórn við fáúm. Að mínu mati er þjóðin á hausnum og aðeins tímaspursmál hvenær alþjóðasamfélagið tekur í taumana og einhver vinveitt þjóð aumkast yfir okkur. Endum við ekki sem hvít stjarna á bláum grunni!! 

Haraldur Aðalbjörn Haraldsson (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 12:52

15 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ætli það verði ekki frekar gul stjarna á bláum grunni, landið er þegar komið á peningaseðla evrulanda! 

Andri Geir Arinbjarnarson, 13.4.2009 kl. 14:26

16 identicon

Guðbjörn Guðbjörnsson er með hárrétta greiningu á vandanum. Við þurfum að semja okkur út úr honum. Ef samningar heppnast vel, getum við náð tökum á vandanum, hratt og örugglega.

Doddi D (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 16:55

17 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Auðvita þurfum við að semja en hvernig og á hvaða grundvelli.  Hvað höfum við að bjóða erlendum kröfuhöfum eða AGS?  Ef við sendum AGS á brott munu engir bankar eða aðrar þjóðir lána okkur fé?  ESB og USA geta sett tolla á okkar vörur til að ná upp í Icesave osfrv.  Útlendingar halda á öllum trompunum í þessu spili.  Við þurfum á reyndum og hæfum leiðtogum til að sigla þessu örugglega í höfn.  Hvar eru þeir?

Andri Geir Arinbjarnarson, 13.4.2009 kl. 17:25

18 identicon

Þetta er einfaldlega sannleikurinn sem þú ert að segja. Við verðum að horfast í augu við þessa stöðu. REyndar nefndi Guðjón Arnar Kristjánsson þetta í umræðu um fjárlög þessa árs en það bara tók enginn undir með honum. Sagan segir að það hafi legið fyrir hjá fyrri ríkisstjórn viðmiklar aðgerðir til að rétta af hallann á ríkissjóði sem hafi verið í formi aukinna veltuskatta, hærrri vsk (30%), hærri áfengisgjalds og hærri skatta á bensín. Hinir tveir síðarnefndu fóru í gegn en hækkun vsk hafi staðið í mönnum. Það er hin klassíka leið AGS að lækka laun opinbera strafsmanna 10% er mikið þegar tekið er tillit til þess að laun hafa þegar lækkað mikið.  Það er einfaldlega mikil hætta á að við íslendingar séu kominir ínn í spíral sem dregur okkur alltaf neðar og neðar. Minni velta vegna hærri skatta, lægri laun og meira atvinnuleysis er einfaldlega uppskrift að landflótta.  Hvernig ætlum við að komast út úr þessu? Möguleikarnir eru tveir ESB eða USD. Mér líst betur á ESB...

Helgi Njalsson (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 18:00

19 identicon

ESB eða einangrun landsins. Ég vil ESB.

Ína (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 18:25

20 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Ég held það þurfi þjóðstjórn í eitt eða tvö ár. Nú til að sameina þjóðina og finna bestu lausnirnar án pólítískra hártogana þyrfti að setja á þjóðstjórn þar sem meirihluti á þingi tekur endanlegar ákvarðanir um stóru málin að vandlega athuguðu máli. Hér er allt á suðupunkti og íslendingar ekki sjálfum sér líkir og strá tortryggni og skít í allar áttir. Við þurfum sátt og vinnufrið, greina vandamálið og lausnirnar óháð tilfinningum, upphlaupum og skítkasti.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 13.4.2009 kl. 21:35

21 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Gott hjá þér að vekja máls á þessu. Stjórnmálamenn verða að fara að segja almenningi sannleikann og þó fyrr hefði verið. þeir verða líka að fara að muna að þeir eiga að vinna í þágu fólksins í landinu en ekki bara fyrir auðvaldið.

Helga Þórðardóttir, 13.4.2009 kl. 23:27

22 identicon

Ekki lítur það vel út....:-( Þó er gott að fá að heyra sannleikann og nokkuð ljóst að engin flokkur mun koma með þessar staðreyndir nú rétt fyrir kosningar.

Engum treysti ég betur til að leiða okkur áfram en Jóhönnu, hún er ekki í neinum vinsældarslag, gerir það sem gera þarf og punktur. VG koma reyndar með sannleikann og segja það sem segja þarf á meðan íhaldið reynir hvað það getur til að lokkka til sín kjána sem ekki skilja að spillingarlýður og græðgishugsun er liðinn tíð og ekki gott að halda að maður tilheyri þeirri grúppu. Það gera bara örfáir í dag. Hér þarf jafnaðarstefnusinna til að leiða okkur út úr þessum hremmingum. Við þurfum að hugsa um fólkið okkar, eldri borgara, öryrkja, börnin okkar. Það þarf að skera niður á réttum stöðum og er engum betur treystandi til þess en Jóhönnu og hennar hugsjón. Við verðum að endurheimta kvótakerfið og nú er lag til að gera það. Burt með íhaldið, hvernig fólki getur einu sinni dottið í hug að kjósa þann gjörspillta og óheiðarlega FLokk......arrrg svo svekkt

p.s. mæli reyndar ekkert með þessum pistli frá Andra rétt fyrir háttinn,,,,

Líney (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 00:30

23 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Andri, þarfur og góður pistill. 

Þú segir: " Auðvitað þurfum við að semja en hvernig og á hvaða grundvelli.  Hvað höfum við að bjóða erlendum kröfuhöfum eða AGS?  Ef við sendum AGS á brott munu engir bankar eða aðrar þjóðir lána okkur fé?"

Ferillinn hjá gjaldþrota fyrirtæki er venjulega þessi:  Greiðslustöðvun, Nauðasamningar, Gjaldþrot.  Nauðasamningar fela venjulega í sér kröfu um stórfellda niðurfellingu skulda, að öðrum kosti stefnir í gjaldþrot. Þrátt fyrir niðurfellingu skulda, verða flest fyrirtæki gjaldþrota engu að síður.   Ísland er klárlega í greiðslustöðvun, en engir nauðasamningamenn hafa verið sendir út af örkinni.  Það virðist fyrst eiga að reyna á skattaþolrif þeirra sem enn standa sæmilega uppréttir.  Það var roluháttur stjórnvalda sem kom þjóðinni í þennan vanda, það verður, ef fram fer sem horfir aumingjaskapur stjórnvalda að spyrna ekki við fótum og fara að fordæmi annarra þjóða (og fyrirtækja) og neita að borga loftbóluskuldir, sem stofnað var til af græðgi lánadrottna og skuldunauta. 

Það hlýtur að varða við mannréttindi heillar þjóðar, ef þvinga á almenning að borga skuldirnar með stórauknum sköttum, og framtíðaránauð margra kynslóða.

Finnst næstum því að ráðamenn reyni nú að tala um þessar skuldir með dularfullri bjartsýni og óraunsæi, grunsamlega tímasett rétt fyrir kosningar.

Vonum það besta, verum viðbúin því versta.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 14.4.2009 kl. 06:50

24 identicon

Flottur pistill. Maður fær hroll af því að lesa hann. Það sorglega við þetta er að núverandi ríkisstjórn hefur ekki þekkingu né kjark til að taka á vandanum sem mun gera þetta enn erfiðara og enn lengra ferli en ella.

Nonni (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband