Borgarahreyfingin skorar sjálfsmark

Ég hef orðið fyrir vonbrigðum með Borgarahreyfinguna.  Ég hélt að hún væri nýtt og ferskt afl í íslenskum stjórnmálum en mér sýnist útspil þeirra að setja Icesave sem skilyrði fyrir ESB samþykki sótt í smiðju Framsóknar.  

En þetta eru ekki einu sinni klók hrossakaup heldur afskaplega klaufaleg.  Því ef Icesave er fellt eins og Borgarahreyfingin vill tekur Brussel varla upp tólið til að tala um ESB aðild.  Því skiptir engu máli fyrir ríkisstjórnina hvort hún hlustar á Borgarahreyfinguna eða ekki.  Sjálfsmark, hreint og klárt.

Við verðum að fara að hugsa praktísk um þessi mál, hvernig komum við okkur best og hraðast út úr þessum erfiðleikum.  Já, það þarf að endurskoða þennan Icesave samning, en það er hægt að gera það seinna. Um leið og við hefjum viðræður við ESB opnast nýjar dyr sem gera okkur kleyft að fínpússa þennan Icesave samning.  

Við megum ekki hengja okkur um of í smáatriðin þó þau séu vissuleg mikilvæg. Þetta snýst líka um tímasetningu sem er að verða krítísk fyrir okkur.  Þetta verður að gerast í réttri röð. Nú skiptir rétt forgangsröðun öllu máli.

 

 


mbl.is Niðurstaða um ESB á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Helga Þorleifsdóttir

Mikið innilega er ég sammála þér,- varð fyrir þvílíkum vonbrigðum með þetta "útspil" Borgarahreyfingarinnar,- get ekki séð að þau séu að koma með nýja sýn í íslenska pólitík

Þórhildur Helga Þorleifsdóttir, 15.7.2009 kl. 20:23

2 identicon

Klókindi er ekki það sama og heiðarleiki. Ég tek heiðarleikann framyfir.

Doddi D (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 20:34

3 identicon

Hvað um það að þingmenn fylgi sinni sannfæringu?  er það ekki lengur Kúl þegar það hentar ekki?

Þau útskýrðu það að (eða amk Birgitta) að  henni hefði blöskrað hvernig lægi í málunum og hafi einfaldlega skipt um skoðun eftir að hún öðlaðist meiri vitneskju um málið.

En NEI, á hún (og þau) þá bara að taka sannfæringu sína og loka hana niðri til að þóknast stjórnarflokkunum?   

Hrafna (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 20:50

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Icesave = ESB

 

Evrópumálin eru samtvinnuð hinu svokallaða Icesave-máli þó harðir Evrópusambandssinnar megi auðvitað ekki heyra á það minnst. Þeir aðilar hafa eðli málsins samkvæmt ríkan pólitískan hag af því að fólk sjái ekki tengslin þarna á milli sem þó eru æpandi.

 

Fyrir það fyrsta gat Landsbankinn í krafti regluverks Evrópusambandsins um starfsemi fjármálastofnana, sem tekið var tekið upp á Íslandi í gegnum aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES), opnað Icesave-innlánsreikningana í Bretlandi og Hollandi.

 

Þetta regluverk reyndist meingallað og raunar mun það hafa verið þekkt staðreynd löngu fyrir fall íslenzku bankanna. Þannig gerði það aðeins ráð fyrir tryggingu bankainnistæðna ef einstakir bankar kæmust í þrot en ekki í tilfelli heils bankakerfis eins og gerðist hér á landi. Það á því einfaldlega ekki við um þær aðstæður sem hér sköpuðust.

 

Hvergi er kveðið á um ríkisábyrgðir á bankainnistæðum í umræddu regluverki Evrópusambandsins. Svokallaður Tryggingasjóður innistæðueigenda sem mjög hefur verið í umræðunni er samkvæmt regluverkinu sjálfstæð stofnun á vegum bankanna.

 

M.ö.o. berum við íslenzkir skattgreiðendur enga lagalega ábyrgð á Icesave-innistæðunum og hvað þá gölluðu regluverki Evrópusambandsins. Þetta hefur margoft verið staðfest og þ.á.m. af stjórnvöldum í ýmsum ríkjum sambandsins. Þ.e. fyrir bankahrunið hér á landi og áður en það hentaði þeim að halda öðru fram.

 

Þetta vita ráðamenn Evrópusambandsins ósköp vel og sömuleiðis hollenzk og brezk stjórnvöld. Ef dómstólar úrskurðuðu Íslandi í vil gæti það sett allt innlánskerfið innan sambandsins í uppnám. Almenningur í löndum þess gæti misst traustið á kerfinu og tekið fé sitt í stórum stíl út úr þarlendum bönkum.

 

Þess vegna vill Evrópusambandið, ásamt hollenzkum og brezkum stjórnvöldum, alls ekki að skorið verið úr því fyrir dómstólum hver ábyrgð Íslendinga raunverulega er í Icesave-málinu. Sem þó hlýtur að teljast hin eðlilega og siðaða leið þegar deilumál eru annars vegar. Evrópusambandið óttast einfaldlega niðurstöðuna.

 

Því hefur verið lögð öll áherzlu á að reyna að kúga okkur Íslendingar til þess að taka á okkur ábyrgðina af gölluðu regluverki Evrópusambandsins sem gerði þetta allt saman mögulegt án þess að gert væri ráð fyrir fullnægjandi og eðlilegum innistæðutryggingum.

 

Þá komum við að hinni stóru tengingunni við Evrópumálin sem er sú staðreynd að forsenda þess að Ísland geti gengið í Evrópusambandið, þ.e. ef einhver áhugi er fyrir því, er að gengið verði að kröfum brezkra og hollenzkra stjórnvalda vegna Icesave-málsins. Þetta hafa ráðamenn innan sambandsins staðfest.

 

Forysta Samfylkingarinnar og ófáir aðrir harðir Evrópusambandsinnar eru því meira en reiðurbúnir að samþykkja Icesave-nauðungarsamningana sem ríkisstjórnin hefur gert við hollenzka og brezka ráðamenn. Enda vilja þessir aðilar í Evrópusambandið nokkurn veginn sama hvað það kostar.

 

Þannig eru þær stjarnfræðilegu upphæðir sem stjórnvöld í Hollandi og Bretlandi vilja að við Íslendingar greiðum þeim vegna Icesave-málsins einfaldlega aðgangseyririnn inn í Evrópusambandið til viðbótar við yfirráðin yfir auðlindum landsins og nær öllum öðrum málum okkar.

Hjörtur J. Guðmundsson, 15.7.2009 kl. 21:08

5 Smámynd: Elle_

Andri , ég er hissa að heyra þig segja að við eigum að fara að ræða við EU.  Um hvað?  Fólkið hefur ekki kosið að fara þangað inn.  Líka finnst mér þau í Borgarahreyfingunni bara þurfa að gera það sem þeim sjálfum finnst, engum öðrum. 

Elle_, 15.7.2009 kl. 23:21

6 identicon

Við áttum aldrei að segja skilið við Dani

Íslendingar hafa alltaf farið verst með Íslendingum.

Friddi (IP-tala skráð) 15.7.2009 kl. 23:51

7 Smámynd: Kama Sutra

Ég er sammála þér Andri. 

Rétt forgangsröðun er crucial núna.  Fyrsta skrefið núna er að hefja viðræður við ESB og síðan lögum við IceSave-samninginn í rólegheitum.  Það er hið eina skynsamlega í stöðunni.  Við Íslendingar höfum í rauninni ekki val um neitt annað.  Við erum búin að mála okkur svo gjörsamlega út í horn.

Kama Sutra, 16.7.2009 kl. 00:14

8 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Ef þingmenn eiga nú allir að fara að kjósa eins og þeir einir vilja þá verðum við fyrst að fá persónukosningar.  Við verðum að geta valið þá einstaklinga sem við treystum.  Kerfið í dag er gallað ef við fáum aðeins að kjósa flokk sem síðan klofnar í helstu málum eins og nú er að gerast.

Andri Geir Arinbjarnarson, 16.7.2009 kl. 08:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband