Seðlabankinn misnotaður í pólitískum tilgangi

Daniel Gros, hinn pólitískt skipaði bankaráðsmaður í Seðlabankanum segir alþjóð að framsóknarflokkurinn sé á móti Icesave.  Er það ný frétt?

Kynnti Daniel sér ekki lög Seðlabankans áður en hann settist í bankaráðsstól? Þar segir að Seðlabankinn eigi að vera sjálfstæður og hans aðalhlutverk er peningamálastefna Íslands.  Pólitískar yfirlýsingar Seðlabankamanna grafa undan þeirra eigin stofnun á sama hátt og þegar ráðherrar eru að skipta sér af störfum Seðlabankans.

Því miður er þetta enn eitt dæmið sem afhjúpar þá veikleika og hagsmunaárekstra sem skapast þegar skipað er í ráð og stjórnir ríkisins á pólitískum grundvelli.  Er Daniel hér að gæta hagsmuna framsóknarflokksins eða landsmanna?

Flest í þessari yfirlýsingu bendir til að þetta komi beint úr smiðju framsóknar.  Óháður erlendur aðili hefði tekið hlutlausara á þessu máli. Það er ekkert nýtt að Icesave er hörmulegt mál.  Allir vita að lífskjör og kaupmáttur mun minnka hér vegna aðgerða stjórnenda gamla Landsbankans en hitt er líka staðreynd, sem því miður Daniels minnist ekki á, að lífskjör og kaupmáttur mun einnig hrapa ef Icesave er hafnað. 

Með því að minnast ekki á hugsanlegar afleiðinga af höfnun Icesave er Daniel að gefa í skyn að lífskjörum hér á landi verði bjargað með því að hafna Icesave.  Þetta er óábyrg forsenda sem grefur undan Seðlabankanum og er hann ekki í sterkri stöðu fyrir.

Eðlilegt er að Daniel segði af sér vegna þessara ummæla og þar með er framsókn komin í vandræðalega Ocsar Wilde stöðu:  "To lose one parent may be regarded as a misfortune; to lose both looks like carelessness."

 


mbl.is Skert lífskjör og kaupmáttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru kunnugleg viðbrögð við óþægilegum yfirlýsingum. Svipuð og leiddu Jóhannes Baug á fund Háskólarektors, og vildi Hannes rekinn.

Herra Gros, haltu kjafti og hirtu peninginn fyrir stjórnarsetuna, og vertu sætur. Það er hefð fyrir því á Íslandi.

Hilmar (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 09:59

2 identicon

Er hann ekki að benda á að e.t.v. gætum við náð betri samningi en nú liggur fyrir þinginu? Breið pólitísk sátt hafði náðst um ákveðna fyrirvara. Er hægt að fyrirgefa stjórnvöldum að bregðast við mótspyrnu viðsemjenda með algerri uppgjöf? Ég held að hér skipti mestu máli sjálfsvirðing smáþjóðar. Undirlægjuháttur í nafni inngöngu í Evrópusambandið er ekki sæmandi þjóð sem hefur unnið landhelgisstríð. Ég er viss um að forsetinn sendir þetta mál í þjóðaratkvæði - hann vill ekki hafa þau eftirmæli á bakinu að vera sendisveinn Samfylkingarinnar.

olafur m. (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 10:01

3 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er málflutningur hjá þér sem er algerlega út í hött.  Stjórnarmaður í Seðlabanka Íslands á einmitt að tjá sig opinberlega um svona mál. 

Kristinn Pétursson, 11.12.2009 kl. 10:20

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

"... segir alþjóð að framsóknarflokkurinn sé á móti Icesave"? Er það eitthvað til að reka hornin í eða til að fræða okkur um? Og hvers vegna leggurðu áherzlu á, að hann sé "pólitískt skipaður"? Telurðu hann framsóknarmann? Tilnefning hans var einmitt dæmi um fagleg vinnubrögð stjórnmálaflokks, sem átti rétt að á tilnefna mann, en valdi að nefna ekki lengur einn úr sínum röðum (eins og gert var með skipan formanns Orkuveitu Reykjavíkur), heldur óháðan fagmann af færasta tagi, doktor í hagfræði og virtan á alþjóðavísu.

Steingrímur og þeir í fjármálaráðuneytinu hafa verið að níða hann með ýmsum hætti, m.a. vegna 5 millj. kr. kostnaðar (417 þús. á mán.) vegna ferða hans hingað til lands, en hann gæti margfaldlega borgað sig, sennilega í engu minna mæli en það gæti borgað sig að losna við Steingrím úr því ráðuneyti.

Segðu okkur svo, Andri Geir: Vilt þú gera kröfu um það til Icesave-stjórnarinnar, að hún fari að ábendingum dr. Daniels Gros um rétt okkar (vegna jafnræðislaga EES) til 1,5% vaxta í stað 5,55%? Sú breyting skilmálanna gæti munað okkur milli 185 og 240 milljarða króna og raunar ennþá meira. STYÐUR ÞÚ ÞAÐ? Viltu þá vera með í áskorun til Alþingis um það atriði?

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 10:28

5 identicon

Að trúa því að fulltrúar þjóðar sem eru að semja um skil á þýfi sem stolið var með velþóknun íslenskra stjórnvalda njóti EES jafnræðis í  vaxtakjörum eins og Jón Valur virðist gera er óraunsæi.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 10:57

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Bankaráð Seðlabankans eins og allar stjórnir og ráð ríkisins eru skipuð eftir pólitísku ferli.  Það er skref í rétta átt af fá erlendan aðila inn í bankaráð Seðlabankans en það verður að ganga það til fulls og sjá svo um að allt ferlið sé eins opið, gegnsætt og óháð eins og best verður. 

Sú staða að fjórflokkurinn skipti öllum mannaráðningum innan hins opinbera á milli sín skaðar hagsmuni almennings.  

Ansi er ég hræddur um að þessi líklega hæfi maður Daniel Gros hafi verið plataður af íslenskum stjórnmálamönnum sem hafa notfært sér hann í pólitískum tilgangi.

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.12.2009 kl. 11:28

7 Smámynd: Alli

Þetta er greinilega miskilningur hjá Hr. Gros.

Hann hefur fylgst með störfum Davíðs Oddssonar í Seðlabankanum og haldið að þetta ætti að vera svona. Svo er ekki ólíklegt að hann hafi eitthvað séð til Hannesar Hommsteins.

Alli, 11.12.2009 kl. 12:05

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Er það Stefán Benediktsson, fv. þingmaður, samherji Vilmundar í Bandalagi jafnaðarmanna, síðar þjóðgarðsvörður í Skaftafelli og sennilega Samfylkingarmaður, sem svarar mér þarna með þessum fráleita hætti kl. 10:57? Birtist í þessu réttarvörn hans fyrir íslenzka þjóð? Er það í alvöru svo, að einu svörin frá Icesave-stjórninni og fylgjendum hennar við hinum afar mikilvægu ábendingum dr. Gros séu skætingur og hneykslanlegar rangfærslur (sbr. svar Steingríms Joðs)?

Andri Geir, þú átt eftir að svara spurningunum í loka-málslið innleggs míns kl. 10:28!.

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 12:15

9 identicon

... en þegar menn í Seðlabanka tala með Icesave þá er það ekki pólitík - nei, þá bera þeir sannleikann á borð. Ég get nú ekki annað en brosað yfir þessari færslu.

Eva Sól (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 12:29

10 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Jón Valur,

Þetta er alþjóðasamningur þar sem Bretar og Hollendingar eru að veita lán til Tryggingasjóðs.  Auðvita vilja allir fá lægri vexti en þeir eru einfaldlega ekki í boði.  Okkur stendur alltaf til boða að fjármagna þetta á annan hátt og ef Gros getur reddað betri fjármögnun er það hið fínasta mál.  Fjármögnunin er aðskilin frá kröfunni um að borga.  Eitt er að samþykkja að við borgum Icesave annað er að fjármagna þetta.  Flest lönd hefðu fjármagnað þetta sjálf með útgáfu skuldabréfa en sá möguleiki er ekki fyrir hendi enda hefði orðið þjóðinni margfalt dýrari.

Vextir á bresk ríkisskuldabréf fara nú hækkandi svo varla er raunverulegt að halda því fram að við getum fengið betri vexti núna.  Því lengra sem líður því betri fara þessir Svavarsvextir að líta út.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.12.2009 kl. 12:30

11 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Eva Sól,

Selabankinn á ekki að skipta sér af ákvörðunum Alþingis og öfugt.  Þetta er reglan hjá öllum sjálfstæðum Seðlabönkum.  Þetta viðhorf þitt að þessi regla sé brosleg sýnir vel hversu á skjön íslensk viðhorf eru frá erlendum.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.12.2009 kl. 12:33

12 Smámynd: Egill

veit að þetta er eitthvað sem fólk er lítið fyrir þessa tímana, en áður en þú segir

"Ansi er ég hræddur um að þessi líklega hæfi maður Daniel Gros hafi verið plataður af íslenskum stjórnmálamönnum sem hafa notfært sér hann í pólitískum tilgangi."

þá þarftu að sýna fram á að þetta sé á rökum byggt en ekki einfaldlega yfirlýsing sem smellpassar við núverandi skoðun þína á málinu.

verst að ég sé fyrir mér útúrsnúninga og að aðrir eigi að sanna að yfirlýsingin sé röng áður en þú dragir hana til baka.

puttapólitík .. sveiattan

Egill, 11.12.2009 kl. 13:47

13 identicon

Burtséð frá því hvort Daniel Gros hefði átt að tjá sig um Icesave eða ekki:

Íslendingar eru ekki trúverðugir gagnvart umheiminum, allra síst Bretum og Hollendingum, nema þeir dragi til ábyrgðar þá sem stofnuðu til Icesave reikninganna í Bretlandi, lykilstjórnendur og lykilhlutafa Landsbankans. Einnig þá stjórnmálamenn og embættismenn sem hjálpuðu til beint eða óbeint með afskiptaleysi eða fyrirgreiðslum. Fremstir í flokki þar eru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson sem einkavæddu Landsbankann á sínum tíma. 

Sveinn (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 14:17

14 identicon

A. Er það er óþolandi að bankaráðsmaður hafi skoðun og segji frá skoðun sinni. 

B. Er það óþolandi að bankráðsmaður hafi þessa skoðun og segji frá henni. 

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 14:44

15 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Þetta snýst ekki um að hafa skoðun á málinu, þetta snýst um fagleg og öguð vinnubrögð innan Seðlabankans.  Gros getur haft hvaða prívat skoðun sem er á málinu en hann skellir henni ekki á forsíðu Morgunblaðsins í nafni Seðlabankans. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.12.2009 kl. 16:24

16 identicon

Að ég best veit er þetta eini faglega skipaði bankaráðsmaðurinn, hinir eru allir flokksgæðingar. Betra væri að aðrir flokkar hefðu tekið sér Framsókn til fyrirmyndar í þessu

bjarnveig Ingvadóttir (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 18:07

17 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Bjargveig,

Gott innlegg og margt til í þessu.  Ekki held ég að Ragnar Arnalds myndi komast á forsíðu moggans.  Er þetta ekki einmitt þetta kostulega í fari Íslendinga.  Þessi stjórnlausa minnimáttarkennd gagnvart útlendingum.

Nei, enginn er spámaður í sínu föðurlandi.

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.12.2009 kl. 19:56

18 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Fyrirgefðu, þetta átti að vera Bjarnveig.

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.12.2009 kl. 19:57

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú hyggur, að með mörgum orðum getirðu kastað ryki í augu lesenda þinna, Andri Geir. Þarna er í 1. lagi um TVO samninga að ræða, annan milli íslenzka ríkisins og þess hollenzka, hinn milli ríkis okkar og hins brezka; þar að auki á Tryggingasjóður okkar aðild að báðum samningunum. Brezka ríkið hefur þegar lánað sínum sjálfstæða tryggingasjóði á ákveðnum kjörum, og þegar það hefur verið gert, hefur hið sama ríki ekki leyfi til þess skv. EES-jafnræðisreglum að krefjast margfalt verri vaxtakjara af íslenzka Tryggingasjóðnum og (í hinzta falli) ríkinu. En það er þó einmitt það, sem þessir ágengu Bretar gera í ofanálag við sína ólögvörðu kröfu á hendur okkur til höfuðstólsins. Haltu bara áfram að réttlæta þennan ágang á okkur að borga 5,55% vexti í stað 1,5% (eins og brezka tryggingasjóðnum nægir að borga), og þú mun ekki uppskera þakklæti þjóðar þinnar, þegar hún hefur áttað sig á spunanum og samstöðunni með fjendum okkar.

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 20:14

20 Smámynd: Andrés Kristjánsson

Jón Valur:

Borgum við fullar tryggingar til að uppfylla þá kvöð sem slíkum tryggingum ber? Það skýtur skökku við að biðja um afslátt á tryggingarábyrgð en heimta Libor skammtímalánsvexti á langtímaláni? Ef þú ert að tala um að virða tryggingarálögurnar til fulls og fá liborvexti á lánum þá komum við mun ver út.

Andri Geir :

Afsakaðu útúrdúr við Jón Val.

En ég tek undir með þér varðandi fagmensku opinbera stofnanna gagnvart alþingi og þar með stjórnmálaflokka. Hugsum okkur RÚV með þesslags yfirlýsingar. Ef opinberir einstaklingar vilji tjá sig um líðandi mál þá ættu þeir að gera það í sínu eigin nafni.

kveðja

Andrés Kristjánsson, 11.12.2009 kl. 21:08

21 identicon

Jón Valur,

Án þess að blanda mér of mikið í Icemálin þá verðum við samt að gera greinarmun á breytilegum LIBOR vöxtum og síðan föstum vöxtum.

Það að breski tryggingasjóðurinn geti tekið lán í dag á breytilegum 1,5% LIBOR vöxtum þá breytir það ekki þeirri staðreynd að fastir 5,55% vextir er óháð öðru vel ásættanlegt; reyndar væru 4,55% mun betra en neðar mun sennilega fá ríki komast.

Að lokum við ég aðeins árétta að meðal 1 M LIBOR vextir á EUR hafa verið um og yfir 3% síðan 1995. Íslenska ríkið er því að fá á lánið sitt við Icesave um 2,5% vaxtaálag sem er miklu lægra en vaxtaálagið sem ríkinu myndi standa til boða færi það út á erlendan lánamarkað í dag.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 21:27

22 Smámynd: Jón Valur Jensson

Andrés og Björn, þið blekkið aðeins þá sem eruð sama sinnis og þið.

Þetta er alveg kristalstært, sem hagfræðingurinn dr. Daniel Gros var að segja, og svör Steingríms voru sjálfum honum til háðungar. Hann sagði, (1) að Gros kynni ekki að reikna og (2) að hann þekkti ekki á Evrópureglur um þessi mál !! Samt er hann heimsþekktur hagfræðingur og Director of the Centre for European Policy Studies (CEPS) í Brussel ! Þá beitti ráðherrann eða ráðuneyti hans moldvörpuvinnubrögðum gegn Gros með því að fara skyndilega (á sama tíma og ábending Gros hafði komið fram) að tala um, að hann væri dýr í rekstri fyrir ríkið – að ferðir hans kosti um 5 milljónir á ári (417.000 kr á mán.). Samt er þetta maður sem gæti verið þyngdar sinnar virði í gulli fyrir Ísland, ef ráðherrann og aðrir í stóði hans væru ekki svona afskaplega staðir.

Jón Valur Jensson, 11.12.2009 kl. 22:11

23 Smámynd: Kristinn Pétursson

Þetta er bara marklus pólitísk  "steypustöð" hjá þér þessi færsla - á ekkert skylt við rökstudd sjónarmið. Daniel Gros hefir verið góður í að koma með nýja vinkla á annars einsleita umræðu og þá er einmitt það sem við þurfum - ný  og fersk sjónarmið.

Svo er hann utan Seðlabankans en ekki innan. Hann er í stjórn Seðlabankans - en starfar þar ekki - sem eykur sjálfstæði hans og gefur orðum hans meira vægi fyrir minn smekk. 

Kristinn Pétursson, 11.12.2009 kl. 23:16

24 identicon

Jón Valur,

Ég held að þú sért eitthvað að misskilja hér. Í grundvallaratriðum deili ég sömu skoðun og mikill meirihluti þjóðarinnar - að ég er á móti því að borga Icesave.

Óháð þeirri skoðun var í fyrri færslu aðeins bent á að 1,5% vextir breska tryggingarsjóðsins eru breytilegir LIBOR vextir ekki fastir langtímavextir. Á þessu er grundvallarmunur. Auðvita væri hreinlega best að þurfa ekki að borga neitt og næstbest að borga til baka með 0% vöxtum.

Hvorugt stendur til boða eða stóð til boða sé miðað við þá niðurstöðu sem okkar "besta samningafólk" gat halað inn.

Ég get boðið þér aðra öxlina ef þú vil brynna sorgum þínum yfir þessu eindæmis klúðri en það tekur því ekki að tuða út í eitt við mig út af Icesave - við erum í sama skítnum og þurfum að borga þetta báðir tveir, eða þannig.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 11.12.2009 kl. 23:46

25 identicon

Ef mönnum finnst þessir 5.55% föstu langtímavextir alltof háir, er þá ekki bara málið að fara og finna lán fyrir þessu annars staðar, á betri kjörum?

 Jón Valur o.fl., myndu þið vera svo væn að nefna einhvern annan sem vill lána okkur?

Einar (IP-tala skráð) 12.12.2009 kl. 00:50

26 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessir þjösnar eru ekki að lána okkur neitt, Einar, áttarðu þig ekki á því? Við höfum ekki þegið krónu af þeim, og þjóðin sló ekki lán hjá þeim, ekki einu sinni okkar vanhæfi fjármálaráðherra.

Svo er það á hreinu, að það er stór munur á 1,5% og 5,55% vöxtum, þegar um háar fjárhæðir er að ræða og tryggðar í pundum og evrum i ofanálag. Þetta eitt getur munað okkur hátt á 2. hundrað þúsund milljónum króna (hátt á 2. hundrað milljörðum). Ef ykkur og fjármálaráðherranum finnst ekki taka því að teygja ykkur eftir því (kostar eitt bein í nefi), þá gef ég nú ekki mikið fyrir ykkar samningahæfni.

Jón Valur Jensson, 12.12.2009 kl. 02:32

27 Smámynd: Jón Valur Jensson

Og reglur um jafnræði á Evrópska efnahagssvæðinu gefa okkur rétt og heimtingu á sömu vöxtum handa okkar Tryggingasjóði eins og brezka ríkið veitir brezka tryggingasjóðnum (um hollenzka Icesave-dæmið kann að gegna öðru máli). – En Andri Geir virðist endilega vilja borga 5,55% vexti, a.m.k. ætlar hann ekki að mótmæla þeim.

Jón Valur Jensson, 12.12.2009 kl. 02:37

28 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Kristinn,

Svo er hann utan Seðlabankans en ekki innan. Hann er í stjórn Seðlabankans - en starfar þar ekki 

Þetta íslenska viðhorf að þeir sem eru í stjórn beri engan ábyrgð og geti hagað sér og sagt það sem þeir vilja er mjög skaðlegt.  Það sama hlýtur þá að gilda um stjórn gamla Landsbankans?  Hver er munur á stjórnarháttum almenningsfyrirtækja og ríkisstofnanna?  

Þessi færsla er um sjálfstæði Seðlabankans, stjórnarhætti og að bankinn hafi verið misnotaður í pólitískum tilgangi.   Ég sé ekki að neinn hér hafi komið fram með haldbær rök gegn þessu.  

Andri Geir Arinbjarnarson, 12.12.2009 kl. 08:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband