Silfur Egils

Það var fróðlegt að koma í þátt Egils og hann á þakkir skilið fyrir ágætan þátt sem hefur haldið uppi sjálfstæðri gagnrýni á menn og málefni.  Þjóðin þyrstir eftir upplýsingum og greiningu á þjóðmálum. Stjórnmálamennirnir hafa misst sitt tangarhald á umræðunni og fólk krefst þess að heyra frá breiðum hóp viðmælanda. 

Hér kemur stutt yfirlit yfir stöðu þjóðarinnar og þá 2 möguleika sem ég nefni í þættinum.

Tökum sama ástandið núna:

  • Allir bankar fallnir og viðreisn bankakerfisins óviss
  • Ónýtur gjaldmiðill sem krefst hárra vaxta og hafta til að skrimta á innlendri grund
  • 75%  fyrirtækja á leið í gjaldþrot eða greiðslustöðvun
  • 20% heimila í neikvæðri eignastöðu og gríðarlegir greiðsluerfiðleikar hjá enn fleirum
  • Sívaxandi atvinnuleysi
  • Skuldafen Íslands eitt það versta á byggðu bóli
  • Tekjustofnar ríkisins hafa hrunið og velferðarkerfið í uppnámi
  • Enginn aðgangur að erlendu fjármagni nema með aðkomu AGS
  • Icesave og erlendar kröfur ófrágengnar
  • Stjórnmálamenn ringlaðir og flokkarnir flestir stefnulitlir
  • Þjóðin reið, óttasleginn, tortryggin og bitur

Og þeim möguleikum sem eru raunverulegir til að vinna okkur út úr þessu eru aðeins tveir:

  1. AGS gæsla og króna
  2. EB innganga og evra

Fyrri möguleikinn er ekki að ganga upp.  Nýlega lækkuðu vextir um 1% og krónan féll yfir 10%.  Þetta sýnir að það er ekki raunverulegt að reka nútíma hagkerfi með kr.  Þetta mun þýða fátækt, atvinnuleysi og spillingu um ókomin ár.  Erlendir aðilar munu ekki treysta Íslendingum ef þeir velja þessa leið og erlent fjármagn án aðkomu AGS mun fara til annarra landa en Íslands.  Í þessari leið munu erlendir kröfuhafar, bankar og AGS halda á öllum spilunum.

Seinni möguleikinn þar sem við göngum í samband sjálfstæðra þjóða mun vera sá gæðastimpill sem við þurfum til að færa ró yfir gjaldeyrismál okkar, laða að erlent fjármagn og bæta réttarstöðu íslenskra borgara. Atvinnumálum er best borgið með inngöngu inn í EB, sérstaklega fyrir háskólamenntað fólk. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú pólitík en ekki fagleg umræða. Það reddar engu að ganga í EB því það verður í fyrsta lagi 2013. Og kreppur munu alltaf koma. Það er bara spurning hverjum er kennt um þær.

Padre (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 19:11

2 identicon

Fagleg umræða er alltaf pólitísk.   Þó innganga í EB sé fyrst 2013 þá er það trúverðug stefnumörkun sem skapar örlítið traust á krónunni. Ferlið tekur langan tíma, en AGS ferlið sannar alltaf betur og betur að krónan er á líknardeildinni. 

Bragi (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 19:20

3 identicon

Alveg ótrúlegt hvað stjórnmálamennirnir virðast vera hræddir við að tala um þessi stóru mál sem blasa við.

Virðist sem þeir séu hræddir við að tala um hlutina eins og þeir eru.

Nú þyrfti Íslenska þjóðin einhverja virkilega framsýna menn við stjórnvölinn. Atvinnuþrasarar og fyrirgreiðslupólitíkusar mættu fara í smá frí.

Þrándur (IP-tala skráð) 29.3.2009 kl. 22:10

4 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hvers vegna getur fólk ekki talað tæpitungulaust eða undir fullu nafni.  Þras er auðvelt en hefur einhver 3. leiðina? 

Andri Geir Arinbjarnarson, 29.3.2009 kl. 23:47

5 identicon

Þessir afarkostir eru afar villandi. Vandamálið er einmitt afleiðing takmarkaðrar og þröngrar hugsunar á borð við þessa: Annað hvort fylgjum við leikreglum alþjóðasamfélagssins (verðbólgumarkmið og frjálsir fjármagnsflutningar) eða göngum í ESB. Og í þessu hugarfarir sátu menn fastir fram í rauðan dauðan.  Nú á að endurtaka vitleysuna. 

Besta von okkar felst í því að hverfa frá bæði ráðum AGS og reglukerfi ESB. Það er einfaldlega heimskulegt að halda að sömu hlutirnir og komu okkur í vanda muni  bjarga okkur úr erfiðleikunum. 

Hér eru dæmi um aðra möguleika: Fella niður skuldir með afskrifum eða kaupum ríkisins á íslenskum skuldabréfum. Láta gengið falla og finna botninn. Ekki gangast undir ábyrgðir á erlendum skuldum bankanna. Breyta gjaldþrotalöggjöfinni. Koma á fót fjölmiyntasamfélagi og láta markaðinn um að finna rétta svarið í gjaldeyrismálum (svarið er ekki að finna í nýklassískri þjóðhagfræði AGS og ECB - þú getur hengt þig upp á það).

Bróðurpart atriðanna sem þú taldir upp til að lýsa ástandinu má heimfæra upp á ESB og Bandaríkin. Þegar tekið er tillit til tímatafar milli fjármálakerfisins og raunhagkerfisins þá er ljóst að ástandið ytra á eftir að versna í a.m.k. hálft annað ár. Mjög líklegt munu ríku vestrænu hagkerfin glíma við tvíburakreppu innan skamms, rétt eins og Ísland. Bæði dollarinn og evran munu kikna ef færa á skuldir bankanna yfir á efnhagsreikning ríkisins; skuldir ríkjanna eru nú þegar komnar vel yfir efri mörk og samt sér varla högg á vatni í skuldasúpu bankanna.  

Er ekki kominn tími til að horfast í augu við vandann - "the game is up" - og brjótast úr viðjum gamla hugafarsins.

Kristján Torfi (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 01:25

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Andri.

Ég var að enda við að horfa á Silfur Egils í endursýningu. Þetta er góður pistill hjá þér og þú komst vel fyrir hjá Agli.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 30.3.2009 kl. 01:56

7 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Kristján,

Takk fyrir innlitið.  Málefnaleg gagnrýni er alltaf góð og þitt innlegg er athyglisvert.  Hins vegar er ég ekki sammála þér.  Sá 3. möguleiki sem þú bendir á er einangrunarstefna "splendid isolation" eins og þetta var kallað í Bretlandi.  Með því að segja okkur úr alþjóðasamfélaginu mundi aðgangur að fjármagni lokast.  Hvernig á ríkið að finna peninga til að kaupa íslensk skuldabréf nema að prenta peninga og hvað með skuldabréf í erlendri mynt? Halla á ríkisfjárlögum yrði að brúa í einu stökki ef ekki nyti við AGS.  Afleiðingarnar fyrir velferðakerfið yrði hræðilegar.  Við yrðum að sníða okkur stakk eftir vexti og ekkert væri hægt að fjármagna nema það sem fæst fyrir útflutningsvörur.  Viðvarandi atvinnuleysi, landflótti, verðbólga og fáktækt myndi fylgja. Aðeins olíuríki geta leyft sér þessa leið.  Ísland yrði Kúba Evrópu. Lestu sögu Nýfundnalands.

Andri Geir Arinbjarnarson, 30.3.2009 kl. 10:00

8 identicon

Skil ekki þessa uppsetningu Andri og möguleikana.  Við höfum þegar valið AGS til einhvers tíma.  Við getum tæpast hætt því án þess að ég þekki það.  Varla myndi það auka á trúverðugleikann.  EB hefur þegar lokað fyrir nýjar umsóknir og staðan á því battaríi óviss.  Varla er raunhæft að sækja um aðild þar næstu misseri enda uppfylltum við ekkert af skilyrðum og munum ekki gera næstu árin. Því er aðild að EB einungis óskhyggja en ekki raunhæfur kostur.

Valkostir þeir sem raunhæfir eru núna eru þessir:

1. Hve lengi höldum við krónunni

2. Hvaða mynt tökum við upp, eða tengjum krónuna við

Baldur (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 13:54

9 identicon

Takk fyrir svarið. Ég er enn ósammála afarkostunum sem þú stillir upp. Það er ekki rétt að þriðja leiðin (og hana má útfæra á ótal vegu) þýði nauðsynlega einangrunarstefnu. Þvert á móti. Samhliða hugmyndunum sem ég nefndi ættum við fyrir alla muni að opna landið meira; fella niður tolla og rýmka heimildir fyrir erlenda fjárfestingar o.s.frv. 

Þessi uppstilling svipar meira til hræðsluáróðurs en raka. AGS eða dauði: Annað hvort skuldsetjum við ríkið upp í topp (og sennlilega gott betur) eða velferðakerfið hrynur og við tekur viðvarandi atvinnuleysi, landflótti, verðbólga og fátækt. Of miklar skuldir komu okkur í vandan og meiri skuldir munu ekki leysa vandanna. Þetta á að vera augljóst.

Hvorki Bandaríkin né Evrópa mun takast að koma á "eðlilegr" útlánastarfsemi í hagkerfum sínum á næstunni. Til þess eru þjóðirnar einfaldlega of skuldugar. Í ljósi ástandsins erlendis skýtur vægast sagt skökku við að segja að ef við fylgjum ráðleggingum AGS þá muni myndast erlend eftirspurn eftir íslenskum skuldabréfum. Þegar hvorki Þýskaland né Bandaríkin geta selt sín ríkisskuldabréf er þessi fullyrðing út í hött.  

Með því að sýna sjálfstæði og nýta fullveldisrétt okkar í efnahagsmálum eru við ekki að "segja okkur úr alþjóðasamfélaginu". Síður en svo, á þennan hátt getum við sýnt forystu í samfélagi þjóðanna. Lausnin finnst ekki nema við prófum okkur áfram og íslenska tilraunin gæti orðið framfaraskref og öðrum til eftirbreytn. Sjálfstæð hugsun og hugrekki til þess að viðurkenna skuldavandann er betri leið en að blind fylgispekt við úrelta dogmatík. 

Kristján Torfi (IP-tala skráð) 30.3.2009 kl. 14:49

10 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Baldur, Það er rétt að við erum í möguleika 1. og valið stendur því um að halda áfram á þeirri braut eða  sækja um aðild að ESB, sem sagt 2. möguleikar.  Sem Evrópuland höfum við alltaf rétt á að sækja um aðild.  Svíar taka við forystu ESB í júlí og þá er góður kostur að sækja um.  Um leið og við sækjum um róast erlendir aðilar og við fáum þann gæðastimpil sem við þurfum.  Auðvita tekur það tíma að komast inn og fá evru.  Við hefðum átt að sækja um í október 2008 þá værum við sex mánuðum lengra komnir.  Það sem beðið er eftir er að við mörkum okkur framtíðarstefnu.  ESB er góð leið en ekki sú eina.  Vandamálið er að stór hluti þjóðarinnar og flestir erlendir aðilar eiga erfitt með að taka aðrar leiðir trúanlegar.  Stefna þjóðarinnar verður ekki trúanleg með því að fá nýja og neyslulitla stjórnmálamenn til forystu.  Sumir íslenskir kjósendur geta tekið þessu trúanlega en erlendir aðilar þurfa að láta verkin tala fyrr en þeir trúa okkur.   Brennt barn forðast eldinn.

Ég vildi óska að það væri góð 3. leið út úr þessu en ég sé hana ekki.

Andri Geir Arinbjarnarson, 30.3.2009 kl. 15:29

11 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Andri ég verð að segja að ég held að aðild að ESB sé einhver töfralausn. Ástæðan er einfaldlega að ESB er allt of sundurleitur hópur til að geta tekið ákvarðanir sem duga fyrir alla. Til viðbótar kemur að Evrópa og reyndar líka USA hafa ausið miljörðum á miljarða ofan inn í bankakerfið og efnahagslífið. Þessa peninga þarf að borga og það verður ekki gert nema með prentun peninga, skattahækkunum eða útgáfu skuldabréfa. Allt þetta leiðir til hækkun vaxta. Peningakerfi heimsins er mikið laskað eftir þessa krísu sem við göngum í gegnum. Þessi kreppa verður þó svipur hjá sjón ef tryggingar kreppan fær að fara af stað. Var að hlusta á Ben Berniki seðlabankastjóra USA sem sagði að ef AIG, stærsta tryggingarfélag USA hefði fengið að fara á hausinn, hefði allt bankakerfi Evrópu hrunið. Ég vil minna á það að AIG getur ennþá farið á hausinn. Er ekki bara betra að viðurkenna þennan skuldavanda og hætta að trúa á einhverjar töfralausnir. Ég vil meina að við eigum langt eftir af þessari kreppu. Og sé ekki fyrir mér hvar heimurinn getur skapað hagvöxt þegar ekki nýtur við endalaus hækkun á eignum og hlutabréfum.

Hörður Valdimarsson, 31.3.2009 kl. 10:42

12 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Hörður,

Ég er sammála mörgu sem þú segir, sérstaklega að botninum sé ekki náð.  Auðvita er ESB engin töfralausn.  Erlendir aðilar gera sér grein fyrir því og blikur eru á lofti hjá ESB en "better the devil you know"  Að standa fyrir utan ESB er í sjálfu sér engin framtíðarstefna, alla vega skil ég ekki hvað í henni felst?  Þetta er stefna VG og D en hvað hafa þessir flokkar annað sameiginlegt? 

Andri Geir Arinbjarnarson, 31.3.2009 kl. 15:31

13 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Andri,

Ég veit nú kannski ekki hvað eigi að gera í stöðunni. Vil þó alls ekki útiloka 3. leiðina sem Kristján Torfa skrifar um.

Nú hef ég tekið þátt í þessu gambli á fjármálamörkuðunum í fjögur ár. Þann tíma hef ég spilað í gegn um Saxo bank í Danmörku og verð að segja að þeirra ráðleggingar í gegn um tíðina hafa verið mjög réttar. Þeir spáðu íslandi á höfuðið í upphafi árs 2007. Þeir meina að framtíðin sé mjög svört fyrir Evrópu og margir þeirra vilja ganga svo langt að Danir eigi að segja sig úr ESB.

Ég vil meina að margar stórar þjóðir Evrópu eigi eftir að fara mjög illa út úr þessu og jafnvel verr en við. Svo er þetta orðið svo mikil spurning um það hvaðan hagvöxturinn eigi að koma þegar allar auðlindir jarðar eru orðnar takmarkaðar. Við sjáum hrávöruverð vera að lækka vegna þess að það er samdráttur í heiminum, áður en það skeði hafði maður aldrei séð þessi verð hvorki á matvöru eða málmum og olíu.

Þessi brjálæðislega eyðsla á vesturlöndum seinustu 20 ár hefur getað átt sér stað vegna þess að Japanir og síðar Kínverjar hafa verið að fjármagna gríðarlegan halla i bandaríkjunum. Við höfum verið að flytja alla framleiðslu til láglauna landa. Þar með höfum við í raun og veru flutt út verðbólgu. Og er þetta ástæðan fyrir að "verðbólgan lækkaði að sjálfu sér" eins og ég las einhverstaðar. Það hefur ekkert verið til fyrir þessari eyðslu og því fór sem fór.

Þessi eyðsla gerði það þó að verkum að lönd eins og Indland og Kína eru farin að keppa við okkur um allt hráefni. Þetta hráefni er ekki til og því væri kannski vit í að halda í fiskinn okkar í stað þess að selja hann undir ESB.

Ég held að það þurfi almennt að stokka upp í því hvernig við almennt hugsum.

Hörður Valdimarsson, 31.3.2009 kl. 16:39

14 identicon

Málið er einfalt, það eru bara þessar leiðir sem Andri Geir nefnir. Svona útópískar leiðir eins og Kristján Torfi nefnir eru hræðilegar, alla vega er tilhugsunin hræðileg. Þetta er svona einhvern vegin ,,taka sénsinn" leið. Gefum bara frat í alþjóðasamfélagið, lokum landamærunum og sjáum svo hvað setur. Ég segi bara, sem betur fer komast ekki svona menn til valda.

Svona hugmyndir vakna vegna þess að andstaðan er svo rík vegna þess að flokkurinn sem viðkomandi kýs er á móti ESB. Þá á bara gera bara eitthvað annað, bara eitthvað, og hugmyndirnar hafa verið skrautlegar allt frá norskri krónu sem hefði sett allar okkar ákvarðanir undir norska seðlabankann, eða leita til Kanada og fá einhvern vegin skjól þar eða taka upp dollar og gera þar með sömu mistökin og Ekvador. Þetta eru svona einhver neyðarúrræði og hugmyndir fólks sem er svo fast í viðjum flokkanna að það getur ekki sætt sig við ESB, heldur leitar það í hugmyndir af þessu tagi af því flokkurinn er á móti. Málið er einfalt, það eru bara þessar leiðir sem Andri Geir nefnir, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við verðum bara að sætta okkur við það að einn flokkur er búinn að fara svona með landið okkar að við neyðumst til að sækja um aðild að ESB.

Valsól (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 21:32

15 identicon

Einföld lausn á ástandinu eins og því er lýst að ofan:

1. Taka upp einhliða dollar eða evru eins og Ársæll Valfells og Heiðar Már Guðjónsson hafa lýst ( http://www.efnahagur.is/index.php/Grein_um_einhli%C3%B0a_uppt%C3%B6ka_Evru_eftir_Hei%C3%B0ar_M%C3%A1_Gu%C3%B0j%C3%B3nsson_og_%C3%81rs%C3%A6l_Valfells )

2. Stóreignaskatt: 95% skattur á eignir umfram 3 milljónir sinnum lífaldur.

3. Ofurhátekjuskattur: 95% skattur á tekjur umfram 24 milljónir á ári.

4. Umsókn um ESB aðild. Samninginn munum við svo fella þegar þar að kemur.

5. Leiðrétting á lánum. Vísitölu-skrímslið og gengisskráningin eru ekki í samræmi við raunveruleikann. Þurfum að koma okkur aftur niður á jörðina og skrá upphæð lána rétt.

Liður númer eitt skýrir sig sjálfur. Þeir sem telja þessa leið óraunhæfa verða að gjöra svo vel að skýra mál sitt rækilega. Tal um bankaáhlaup á brotna banka, þrautavaralán (ríkisstyrk!?) frá Seðlabanka á vonarvöl eða annarskonar hagsveiflur finnast mér ekki traustvekjandi.

Liður tvö myndi einfalda leiðina að réttlætinu sem þjóðin er að bíða eftir, en hefur ekki tíma til. Málaferli í anda Baugsmálaferlana munu taka langan tíma og ekki víst að þau skili neinu. Með stóreignaskatti þá er þessum aðilum refsað strax.

Við erum með lágmarkslaun, þurfum líka að hafa hámarkslaun. Miðað við meðaltekjur á Íslandi þá er enginn það klár og duglegur að hann sé meira virði en 2 milljóna á mánuði.

Ferlið til að ganga inn í ESB er alltof langt til þess að við getum beðið eftir því og evrunni. Einnig er mjög ólíklegt að við fengjum samning sem við gætum sætt okkur við og þjóðin mun aldrei treysta ESB. En umsókn er góð leið til að ávinna okkur tímabundið traust á meðan við rísum á fætur. Auk þess getum við þá hætt að tala um ESB og farið að tala um brýnni málefni.

Þó ég vorkenni ekki fólki sem tekur of mikil lán til að geta staðið undir þeim, þá finnst mér ekki sanngjarnt að þetta sama fólk blæði fyrir stjórnmálamennina, óreiðumennina og erlenda efnahagskreppu. Bæði gengið og vístalan eru greinilega vitlaust skráð. Leiðrétta þarf vísitöluna handvirkt og svo leysast vandamálin með gengistryggðu lánin þegar við fáum eðlilega mynt.

Með öllum þessum ráðstöfunum þá munu Íslendingar verða komnir með fast land undir fæturnar, þjóðin sátt við uppgjör fortíðarinnar og allir tilbúnir til að takast á framtíðina með bros á vör

Halldór Grétar Einarsson (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 23:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband