Ný lög um Seðlabankann

Nú á að auglýsa eftir Seðlabankastjóra. Þetta mun vera nýmæli í hinum vestræna heimi og um margt athyglisvert. Auglýsing gefur öllum kost á að sækja um stöður en því miður er það engin trygging fyrir að ráðningarferlið verði óháð eða að auglýsing nái til hæfustu einstaklinganna.

Það að auglýsa seðlabankastöðu er ekki sérstaklega traustvekjandi í augum erlendra aðila. Þeir eru vanir að þegar kemur að mikilvægum stöðum þá séu skipaðar sérstakar leitar nefndir (search committees) sem draga upp lista af hæfum og eftirsóknarverðum umsækjendum.  Erlendis sækja eftirsóknarverðir einstaklingar aldrei um stöður, þeir eru leitaðir uppi. Þau skilaboð, að nú eigi að auglýsa stöðu Seðlabankastjóra á Íslandi geta verið misskilin erlendis og margir þar munu túlka það sem svo að ekki munu hæfustu einstaklingarnir fást með þessari aðferð.

Nýju lögin velta líka upp öðrum spurningum. Hver fer yfir umsóknir og tekur ákvörðun um hæfni? Hver tekur viðtöl við umsækjendur? Forsætisráðherra? Mjög óeðlilegt er að þessi nýju lög skilgreini hvaða ráðningartól eigi að nota en ekki hver á að fara með þau. Eðlilegra hefði verið að skilgreina hverjir beri ábyrgð á ráðningarferlinu og leyfa þeim að nota öll þau tæki sem völ er á til að fá sem hæfastan einstakling í stöðu Seðlabankastjóra. Hér hefði Alþingi átt að vera með í ráðum.

Peningastefnunefnd er nýmæli í þessum lögum og er þar leitað fyrirmyndar frá Bretlandi. Hins vegar er athyglisvert að þessi nefnd er skipuð af Seðlabankastjóra og Forsætisráðherra. Þar með er peningamálastefna landsins í höndum tveggja aðila. Hér hefði verið betra að auka breidd í vali á nefndarmönnum og láta t.d. viðskiptaráðherra og Alþingi skipa þessa 2 utanaðkomandi aðila.

Að lokum, af hverju var ekki settur inn kafli um hvernig og undir hvaða kringumstæðum hægt er að víkja Seðlabankastjóra frá?


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband